Karaktersigur í háspennuleik gegn endurfæddum Grindvíkingum

Hér eigast Viðar og Lewis Clinch Jr. við en þeir háðu nokkrar rimmurnar í leiknum. Lewis varði þessa íleggju Viðars en það var þó Viðar sem var í sigurliðinu í kvöld. MYND: HJALTI ÁRNA
Hér eigast Viðar og Lewis Clinch Jr. við en þeir háðu nokkrar rimmurnar í leiknum. Lewis varði þessa íleggju Viðars en það var þó Viðar sem var í sigurliðinu í kvöld. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var háspenna í Síkinu í kvöld þegar Tindastóll og Grindavík mættust í sjöttu umferð Dominos-deildarinnar. Grindvíkingar voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik og voru hreinlega mjög flottir en Tindastólsmenn mættu til leiks með grjótharða vörn í síðari hálfleik þar sem Viðar klíndi sig á Lewis Clinch Jr. Síðustu mínútur voru síðan æsispennandi þar sem nokkrir dómar duttu með gestunum. Jóhann Ólafsson þjálfari Grindavíkur sagði eftir leik að þetta væri þriðji eða fjórði leikurinn í röð sem hans menn tapa í Síkinu á síðustu sókn leiksins og var að vonum svekktur. Lokatölur 71-70 fyrir Tindastól.

Það voru gestirnir sem fóru betur af stað og Sigtryggur Arnar var erfiður gömlu félögum sínum, kom Grindvíkingum í 4-9, en Brilli lagaði stöðuna fyrir Stólana. Þegar sex mínútur voru liðnar var staðan 11-13 en þá kom slæmur kafli hjá liði Tindastóls á meðan lið Grindvíkinga lék á alls oddi og var yfir 13-24 að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir náðu þrettán stiga forystu í upphafi annars leikhluta en þá hrökk varnarleikur Stólanna í gírinn og nokkrar eldsnöggar körfur fylgdu í kjölfarið. Örsókn sem endaði á ofurtroðslu Uralds eftir magnaða stoðsendingu Péturs fékk stuðningsmenn Stólanna upp á iljarnar en stemningin í Síkinu í kvöld var dúndur. Pétur jafnaði leikinn 27-27 með íleggju og stuttu síðar setti Brilli þrist til að koma Stólunum í 32-30 þegar tvær og hálf mínúta var til leikhlés. Þá slaknaði á einbeitingu heimamanna og gestirnir gerðu síðustu tólf stig hálfleiksins og voru því með góða stöðu í hálfleik. Staðan 32-42 og allt byrjunarlið gestanna að spila vel en Bamba var þeirra stigahæstur með 12 stig þegar þarna var komið.

Það var því alveg ljóst að Tindastólsmenn þurftu að trekkja upp varnarleikinn á ný og það var lítið hægt að kvarta yfir honum í síðari hálfleik þó svo að Grindvíkingar hafi tekið nokkrar skorpur í frákastatínslu, sem var óþarfi. Gestirnir gerðu þó fyrstu körfu þriðja leikhluta en í kjölfarið fylgdi þristur frá Pétri og annar frá Dino, sem hafði haft sig lítið í frammi í fyrri hálfleik. Hann bætti við öðrum þristi skömmu síðar og Stólarnir komnir á fullu inn í leikinn. Næstu mínútur var allt í járnum og liðin skiptust á um forystuna en þegar þriðja leikhluta lauk var allt hnífjafnt. Staðana 57-57.

Tindastólsmenn skelltu lokinu á körfuna sína í upphafi fjórða leikhluta og Grindvíkingar gerðu ekki stig fyrstu rúmu fjórar mínúturnar og náðu Stólarnir átta stiga forystu, 65-57. Gestirnir tóku leikhlé og Jóhann þjálfari náði að berja baráttu í sína menn sem komu tilbúnir í slaginn út úr hléinu. Nú voru það Tindastólsmenn sem áttu í veseni með koma boltanum í körfuna og gestirnir kroppuðu í forystuna. Nú var varist um allan völl og bæði lið hungruð í sigurinn og stigin tvö sem í boði voru. Eftir sókn þar sem gestirnir hirtu fjölda sóknarfrákasta setti Lewis Clinch Jr. niður þrist og í kjölfarið henti Dino boltanum í hendurnar á Ólafi Ólafs sem minnkaði muninn í eitt stig, 66-65. Það þurfti ekki að koma á óvart þegar Pétur fann Brilla í horninu stuttu síðar og hann smellti þristinum niður af gömlum vana og færði Stólunum smávegis andrými þegar 90 sekúndur voru eftir. Hollendingurinn ólseigi, Jordy Kuiper, svaraði með þristi þegar mínúta var eftir en skömmu síðar braut Sigtryggur Arnar á Pétri sem setti bæði skotin niður af fádæma öryggi. 

Grindvíkingar tóku aftur leikhlé og áður en boltinn komst í leik braut Danero á Arnari og dæmd óíþróttamannsleg villa. Skotin setti kappinn niður og minnkaði muninn í eitt stig á ný og Grindvíkingar fengu boltann á ný. Pétur varði 3ja stiga skot Arnars og Urald King náði boltanum en kastaði honum út af undir pressu og eftir smá sjónvarpspásu dómaranna var gestunum dæmdur boltinn. 24 sekúndur eftir og ljóst að Grindvíkingar vildu halda boltanum og gera síðan árás á körfuna þegar skammt væri eftir. Eftir talsvert dripl missti Lewis næstum boltann þegar hann réðst inn í vörn Stólanna en kom honum á Ólaf sem náði erfiðu skoti þegar 2 sekúndur lifðu, boltann boppaði af hringnum og tvívegis náði Urald King að slæma fingrum í boltann og koma í veg fyrir að Kuiper kæmi boltanum í körfuna. Lokatölur 71-70 í leik þar sem áhorfendur voru gjörsamlega farnir á límingunum og margir hverjir sennilega þreyttari en leikmennirnir.

Stólarnir komust aldrei á almennilegt flug sóknarlega í þessum leik en varnarleikurinn var frábær á löngum köflum og þá sérstaklega í síðari hálfleik. Í viðtali á Vísir.is segir Israel Martin: „Þetta er annar leikurinn hjá okkur þar sem er spenna og við sönnuðum það fyrir okkur að við getum unnið svona leiki. Við vorum þolinmóðir og héldum einbeitingunni jafnvel þegar allt var undir á lokasekúndunum. Kröftug vörn skilaði þessu og er ég mjög ánægður með hversu þroskaðir við vorum og við sóttum þennan sigur.“ Urald King átti sem fyrr fínan leik, skoraði 23 stig og tók 14 fráköst en hann tapaði þó óvenju mörgum boltum í kvöld eða sex. Brynjar og Danero voru með 12 stig hvor, Dino með 11 og Pétur 10 stig og sjö stoðsendingar. Mesta klappið í kvöld fékk Viðar sem var hreint magnaður í vörninni.

Grindvíkingar komu til leiks með bullandi sjálfstraust eftir flottan sigur á liði Keflavíkur í Geysis-bikarnum sl. mánudag. Það er allt annað að sjá til liðsins nú en í fyrstu leikjum tímabilsins þar sem þeir voru nánast ekki við sem lið. Kuiper var stigahæstur þeirra með 17 stig, Sigtryggur Arnar gerði 16, Bamba var með 15 stig og 13 fráköst og þar af sjö sóknarfráköst, Lewis var með 14 stig og Ólafur Ólafs var drjúgur að venju með ógnarbaráttu.

Tölfræði leiks af vef KKÍ >

En góður sigur Tindastóls staðreynd við erfiðar kringumstæður. Fyrir leik var Guðbjargar Ragnarsdóttur minnst með mínútuþögn en Guðbjörg lést nú seint í október á besta aldri eftir erfið veikindi. Hún var móðir Viðars, Ragnars, Rakelar og Marínar sem öllu spila fyrir meistaraflokka Tindastóls í körfunni. Af þessu tilefni heiðruðu bæði lið minningu Guðbjargar og léku með sorgarbönd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir