Kári hirti öll stigin á föstudaginn

Bjarki Árna náði þeim áfanga að spila sinn 200. leik fyrir Tindastól. Vel gert! Mynd: ÓAB.
Bjarki Árna náði þeim áfanga að spila sinn 200. leik fyrir Tindastól. Vel gert! Mynd: ÓAB.

Strákarnir í meistaraflokki Tindastóls þurftu að láta í minni pokann fyrir liði Kára frá Akranesi sl. föstudagskvöld er liðin áttust við í 2. deildinni í knattspyrnu á Sauðárkróksvelli. Staða Stólanna er ansi þung þar sem þeir sitja í næstneðsta sæti deildarinnar og því í fallsæti. Það voru Káramenn sem skoruðu tvö fyrstu mörkin, það fyrra Alexander Már Þorláksson á 31. mínútu og Andri Júlíusson á þeirri 42. og því 2-0 í hálfleik fyrir gestina.

Það var svo Jónas Aron Ólafsson sem minnkaði muninn fyrir heimamenn á 50. mínútu og þar við sat allt til enda leiks. Dómari leiksins var gjafmildur á gula spjaldið en alls lyfti hann því sjö sinnum, tvisvar til Káramanna en fimm sinnum til Stóladrengja.

Eins og áður segir er Tindastóll í fallsæti, situr í 11. og næst neðsta sætinu með 11 stig en baráttan hvergi nærri búin þar sem sex leikir eru eftir til að laga stöðuna. Höttur er sæti ofar með 14 stig og Víðir og Leiknir Fjarðabyggð eru í 8. og 9. sætinu, bæði með 16 stig en Þróttur úr Vogunum virðist hafa náð að hrista falldrauginn af sér og er með 23. stig.

Næsti leikur liðsins er einmitt gegn Hetti á morgun á Sauðárkróksvelli og ástæða til að hvetja sem flesta til að mæta á völlinn og hvetja okkar ungu og efnilegu drengi til dáða. Með sigri ná Stólarnir að jafna Hattarmenn sem væri gott skref í því að halda sér í deildinni.

Þau skemmtilegu tímamót urðu hjá reynsluboltanum og varnarjaxlinum Bjarka Árnasyni að hann spilaði sinn 200. leik með Tindastól og ástæða til að óska honum til hamingju með það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir