Karl Lúðvíks sæmdur Gullmerki UMFÍ

Karl Lúðvíks kominn með Gullmerki UMFÍ í barminn en það var Málfríður Sigurhansdóttir sem afhenti honum merkið. MYND AF VEF UMFÍ
Karl Lúðvíks kominn með Gullmerki UMFÍ í barminn en það var Málfríður Sigurhansdóttir sem afhenti honum merkið. MYND AF VEF UMFÍ

Það var ekki nóg með að Gunnar Þór Gestsson væri sæmdur Gullmerki ÍSÍ á ársþingi UMSS um liðna helgi því auk hans var íþróttakempan og kennarinn Karl Lúðvíksson sæmdur Gullmerki UMFÍ. Í frétt á vef Ungmennafélags Íslands segir að Karl sé þekktur fyrir störf sín og er fastagestur á Landsmóti UMFÍ 50+ sem haldið er ár hvert.

„Karl, sem er kominn á áttræðisaldur, er kallaður íþróttaálfur Skagafjarðar og er hann enn að. Hann er meðal annars með tíma í Íþróttahúsinu í Varmahlíð, keppir á meistaramóti öldunga í frjálsum íþróttum og kennir skyndihjálp við [Farskólann] og hjá Rauða krossinum,“ segir í frétt á vef UMFÍ.

Fram kemur að á þinginu hafi sömuleiðis verið veitt starfsmerki UMFÍ. „Þau hlutu í ár Stefán Guðmundsson, sem hefur staðið í ströngu á mótum í blaki, frjálsum íþróttum og körfuknattleik; Una Aldís Sigurðardóttir, sem hefur líka haldið utan um mót í körfuknattleik og sá um blak á Landsmótinu á Sauðárkróki árið 2018 og Unglingalandsmótum UMFÍ sem haldin voru á Króknum árin 2014 og 2023; Þorvaldur Gröndal, sem hefur verið gjaldkeri UMSS frá árinu 2016 og setið í mótanefndum á vegum UMFÍ vegna móta á Sauðárkróki.“

Karl hlaut nýlega Samfélagsviðurkenningu Molduxa

Að sögn Thelmu Knútsdóttur, framkvæmdastjóra UMSS, var ekki margt sem lá fyrir á þinginu annað en að breyta lítillega orðalagi um lottógreiðslur og kjósa um inngöngu Pílukastfélags Skagafjarðar í UMSS. „Pílukast hefur verið vaxandi grein í Skagafirði, iðkendur kepptu töluvert í fyrra og látið að sér kveða undir merkjum Pílukastfélags Skagafjarðar, sem var stofnað í fyrra,“ segir í fréttinni.

Það má geta þess að Karl Lúðvíks er að verða þaulvanur í að taka á móti viðurkenningum því á síðasta Jólamóti Molduxa hlaut kappinn Samfélagsviðurkenningu Molduxa en eins og allir vita eru Molduxar langt á undan sinni samtíð. Í byrjun árs birtist ítarlegt viðtal við Karl í Feyki þar sem hann sagði Palla Friðriks sögu sína.

- - - - - -
Fréttin var uppfærð 1. maí kl. 22:00

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir