Kaupa vatnsdælu í stað pakkaskipta

Nemendur og starfsfólk Höfðaskóla á Skagaströnd ætla að breyta út af vananum á litlu jólunum og sleppa pakkaskiptum. Í staðinn leggur hvert heimili til 1000 krónur í söfnun fyrir vatnsdælu hjá UNICEF.

Á vef skólans segir að vel hafi verið tekið í söfnunina og kom t.a.m. ein amman með pening í söfnunina, 1000 krónur fyrir hvert barnabarn sem hún á í skólanum. Stefnt er að því að ljúka söfnuninni og kaupa varninginn þann 19. desember nk. en UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, stendur fyrir sölu á ýmsum varningi undir heitinu Sannar gjafir.

Hvað eru sannar gjafir?
Sannar gjafir UNICEF eru lífsnauðsynleg hjálpargögn fyrir bágstödd börn. Gjöfunum sem þú kaupir í vefverslun UNICEF er dreift til barna og fjölskyldna þeirra í samfélögum þar sem þörfin er mest.

Sannar gjafir UNICEF eru keyptar í nafni þess sem þig langar að gleðja. Þú færð fallegt gjafabréf með ljósmynd og lýsingu á gjöfinni og lætur viðkomandi fá bréfið. Hjálpargögnin sjálf eru hins vegar send úr birgðastöð UNICEF til barna í neyð.
Þú getur valið um margs konar hjálpargögn í öllum verðflokkum. Öll eiga þau eitt sameiginlegt: Að bæta líf barna um víða veröld. Sjá nánar HÉR

Vatnsdæla kostar, samkvæmt heimasíðu NICEF, 55.300 kr. en ekki er um neina venjulega vatnsdælu að ræða því hún útvegar heilu þorpi hreint drykkjarvatn. 
Uppsetning vatnsdælu hefur margvísleg jákvæð áhrif á samfélag. Til dæmis batnar líf kvenna og barna á staðnum verulega þar sem þau þurfa ekki að ganga langar leiðir til að sækja þungar vatnsfötur, en að sækja vatn fyrir heimilið lendir oftast á þeirra herðum. Börnum gefst því aukinn tími til skólagöngu - og til þess að njóta barnæsku sinnar og leika sér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir