Keflvísk sveifla snéri bikarúrslitaleiknum á hvolf

Ekki vantaði Stólana stuðning frekar en fyrri daginn. MYND: INGA DÓRA
Ekki vantaði Stólana stuðning frekar en fyrri daginn. MYND: INGA DÓRA

Það var spilað til úrslita í VÍS bikarnum í dag en þá mættust lið Tindastóls og Keflvíkur í Laugardalshöllinni. Leikurinn var æsispennadi framan af en síðari hálfleikurinn reyndist leiðinlega sveiflukenndur fyrir stuðningsmenn Stólanna því eftir að hafa náð 14 stiga forystu í upphafi hans þá datt botninn úr leik okkar manna og Keflvíkingar hrukku í gírinn. Lokatölur 79-92 og ekki annað í stöðunni en óska Keflvíkingum til hamingju.

Fyrri hálfleikur var gríðarlega spennandi og skemmtilegur þar sem liðin skiptust 15 sinnum á um að hafa forystuna. Staðan var 22-21 fyrir Tindastól að loknum fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta ákváðu Keflvíkingar að leyfa Ragga að skjóta á körfuna, enda ekki þekktast stigaskorari Stólanna, en svaraði með því að setja tíu stig á töfluna. Liðin leiddust áfram hönd í hönd en það voru Stólarnir sem leiddu í hálfleik með tveimur stigum. Staðan 44-42.

Drungilas hefur væntanlega fengið sér eitthvað gott í hálfleik því hann gerði sex fyrstu stig síðari hálfleiks og þegar Woods og Geks bættu hvor við sínum þristinum ætlaði allt um koll að keyra hjá stuðningsmönnum Stóla í Höllinni. Staðan 56-42 og útlitið ansi gott. Jaka Brodnik svaraði með þristi fyrir lið Keflavíkur en Geks bætti við þristi og enn munaði 14 stigum þegar fimm mínútur lifðu af þriðja leikhluta. Staðan þá 61-47 og þá var eins og hausinn færi af okkar mönnum. Fimm mínútum síðar höfðu Keflvíkingar bætt við 26 stigum en Stólarnir aðeins sex og staðan því 67-73.

Það hvorki gekk né rak í sóknarleik Stólanna í fjórða leikhluta og má því segja að þó munurinn hefði lengstum verið átta til tíu stig þá náðu strákarnir aldrei að ógna forystu Keflvíkinga svo neinu næmi. Drungilas minnkaði muninn í átta stig, 78-86, þegar þrjár og hálf mínúta var eftir og þá þurftu Stólarnir að rísa upp á afturlappirnar en það gerðist bara ekkert, aðeins eitt stig bættist við á stigatöfluna hjá okkar mönnum áður en flautað var til leiksloka.

Woods var stigahæstur í liði Stólanna með 18 stig, Drungilas var með 15 stig og tíu fráköst og Raggi var með 12 stig. Pétur, Arnar og Tóti náðu sér ekki á strik í sókninni í dag og ef enginn þeirra finnur fjölina sína þá er á brattan að sækja. Í liði Keflvíkinga voru það fyrrum leikmenn Stólanna sem reyndust eins konar x-faktor í leiknum en Brodnik og Daneiro hittu á toppleik.

Misstu fókus

Feykir náði í annan þjálfara Tindastóls, Helga Margeirs, og bað hann að fara yfir leikinn. „Leikurinn spilast í langan tíma eins og við viljum, meiri ákefð varnarlega og leikurinn í góðu jafnvægi. Við að skora úr opnum leik, og þeir kannski helst inni í leiknum með þvi að komast á vítalínuna. Seinni hálfleikurinn byrjar svo mjög vel og okkur líður vel en svo snýst leikurinn um miðjan þriðja leikhluta sem við náum aldrei að snúa við almennilega. Varnarlega missum við fókus og fleiri leikmenn fara að setja stig á töfluna hjá þeim, eitthvað sem okkur hafði tekist að koma í veg fyrir fram að því og sóknarlega hægist á okkur. Því miður fór þetta svona núna, við vildum klárlega gera betur fyrir okkar fólk sem stóð sig frábærlega í stúkunni. Við finnum fyrir þessum stuðningi og hann er okkur mikilvægur fyrir framhaldið,“ sagði Helgi Margeirs.

Sannarlega svekkelsi að svona hafi farið með þessa sjóferð sem lofaði svo góðu framan af en Stólarnir komu sér í úrslitaleik í bikarnum og það gerist ekki á hverju tímabili. Nú er bara að taka það jákvæða úr þessari bikarhelgi og einbeita sér að næstu leikjum. Miði er möguleiki. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir