Kennsla hafin á nýrri slátrarabraut við FNV

Frá Kjötafurðastöð KS.
Frá Kjötafurðastöð KS.

Kennsla í slátraraiðn hófst í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra um helgina. Slátrarabrautin er nýjung hjá skólanum en ekki hafa slátrarar verið útskrifast úr skóla hérlendis síðan upp úr 1990 hjá Iðnskólanum í Reykjavík. Að sögn Páls Friðrikssonar, slátrara, kjötiðnaðarmeistara og kennara við brautina, eru nemendurnir átta talsins sem sækja kennslustundir í byrjunaráföngum, þar af eru fimm í staðarnámi og þrír í fjarnámi. Alls eru 18 nemendur skráðir til náms.

Námið sem um ræðir er 110 eining starfsnámsbraut og er meðalnámstími tvö ár, þrjár til fjórar annir, með vinnustaðasamningi. Bókleg kennsla fer fram í lotunámi í FNV og verkleg kennsla (40 einingar) fer fram hjá sláturhúsum og afurðastöðvum. Nemendur munu útskrifast sem slátrarar.

„Það gekk mjög vel. Við byrjuðum á gæðakerfi sem tekur á innra eftirliti hjá matvælafyrirtækjum,“ sagði Páll þegar hann var spurður hvernig námið fór af stað.

Aðgangskröfur eru þær að nemendur þurfa að vera orðnir 18 ára og hafa lokið grunnskólaprófi eða sambærilegu prófi. Þá er starfsreynsla metin til styttingar á námi samkvæmt raunfærnimati í slátrun. Hluti þeirra hóf nám sitt um helgina en aðrir að byrja sitt nám síðar.

Að sögn Páls nýttu margir starfandi kjötiðnaðarmenn tækifærið og fóru í raunfærnimat hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins víða um landið. „Sumir nemendurnir sleppa við einhverja áfanga enda búnir að taka þá í öðru námi eða eru vel kunnandi samkvæmt raunfærnimatinu. Einhverjir kjötiðnaðarmenn hafa það mikla reynslu í slátrun og geta því útskrifast fljótlega,“ sagði Páll að endingu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir