Kirkjuferð 1. - 4. bekkjar á Hvammstanga

Heimsókn í Kirkjuhvammskirkju. Mynd: grunnskoli.hunathing.is/
Heimsókn í Kirkjuhvammskirkju. Mynd: grunnskoli.hunathing.is/

Á Hvammstanga fóru nemendur og kennarar í 1. - 4. bekkjar Grunnskóla Húnaþings vestra  í gönguferð upp í Hvamm í heimsókn í Kirkjuhvammskirkju þar sem þeir fá fræðslu um inntak jólaguðspjallsins. „Það er afar hátíðlegt að ganga upp ásinn í myrkrinu og sjá jólaljósin á Hvammstanga og ekki síður hátíðlegt að sjá kirkjuna og garðinn ljóma í ljósum,“ segir á vef skólans.

Þar er einnig rifjuð upp ein eftirminnilegasta upplifunin í einni af þessum ferðum sem farin var fyrir nokkrum árum. „Þegar ljósin í kirkjugarðinum blöstu við af ásnum spurði nemandi upprifinn: „Vá, er þetta New York?““

Á kirkjukort.is segir að jörðin Kirkjuhvammur á Vatnsnesi, sem í fornum skjölum er nefnd Hvammur í Miðfirði, hafi verið talin góð jörð, þó ekki væri um stórbýli að ræða. Kirkjuhvammur er talinn þingstaður árið 1406. Búskap var hætt í Kirkjuhvammi árið 1947 og húsin jöfnuð við jörðu um 1960. Kirkjan er eina húsið frá fyrri tíð, sem nú er á jörðinni.
Kirkju er fyrst getið í máldaga árið 1318 og sennilega hefur alltaf verið um torfkirkjur þar að ræða, sem staðið hafa í kirkjugarðinum á svipuðum stað og sú sem þar stendur nú.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir