Kirkjugarður finnst í Utanverðunesi

Á myndinni má sjá staðsetningu könnunarskurðarins sem grafinn var í túni Utanverðuness. Mynd: Byggðasafn Skagfirðinga
Á myndinni má sjá staðsetningu könnunarskurðarins sem grafinn var í túni Utanverðuness. Mynd: Byggðasafn Skagfirðinga

Í sumar hefur verið unnið að rannsóknum á vegum Skagfirsku kirkju- og byggðasögurannsóknanna í Hegranesi fjórða árið í röð en það er samstarfsverkefni Byggðasafns Skagfirðinga og fornleifarannsóknastöðvar- innar Fiske Center í UMass Boston. Rannsóknirnar hafa þann tilgang að skoða aldur og dreifingu elstu byggðar í Hegranesi og tengsl byggðaþróunar við kirkjusögu svæðisins.

Á heimasíðu Byggðasafns Skagfirðinga segir að við rannsóknina í sumar hafi m.a. fundist forn kirkjugarður í landi Utanverðuness en í fyrra sýndu ratsjármælingar vísbendingar um mögulegan kirkjugarð rétt sunnan við garðinn kringum íbúðarhúsið. Vísbendingar um að þar hafi verið kirkja finnast í bréfi frá 14. öld þar sem segir að presturinn á Sjávarborg fái greitt fyrir að syngja messu í Keflavík, Utanverðunesi og á Hellulandi. Eru það einu ritheimildirnar sem fundist hafa en áður var upphækkun sem kallaðist Kirkjuhóll í túni sunnan bæjarins og voru sögusagnir um kirkjugarð tengdar hólnum.

„Könnunarskurður var tekinn í sléttuðu túni rétt sunnan við meinta kirkju samkvæmt jarðsjármyndinni. Í ljós komu mögulegar leifar veggjar sem hlaðinn hefur verið eftir 1104 og gætu verið leifar bænhússins frá 14. öld. Neðan 1104 gjóskunnar komu svo í ljós samskonar uppfyllingar torflög og fundist hafa í öðrum samtíða kirkjugörðum. Þessi lög hafa verið sett í garðana til að slétta úr misfellum í landslagi og til að auðvelda greftrun í þeim. Í uppfyllingarlaginu sáust svo útlínur einnar grafar. Á um 60cm dýpi fundust svo leifar kistu og í henni beinagrind. Það er því ljóst að þarna hefur verið kirkjugarður á 11. öld sem hefur verið aflagður snemma þótt þarna stæði áfram bænhús a.m.k. fram á 14. öld,“ segir á heimasíðu Byggðasafnsins.

Fylgjast má með rannsókninni á facebook hennar https://www.facebook.com/icelandscass.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir