Kiwanisklúbburinn Drangey safnar fyrir nýju speglunartæki
Kiwanisklúbburinn Drangey hefur í allmörg ár látið til sín taka í samfélagsmálum á Sauðárkróki og í Skagafirði en nýjasta verkefnið sem þeir hafa tekið sér fyrir hendur er að standa fyrir umfangsmikilli söfnun til kaupa á nýju speglunartæki sem staðsett yrði á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Sauðárkróki. Kiwanismenn hafa heimsótt fyrirtæki í firðinum og fengið góðar viðtökur en segja enn vanta nokkuð upp á til að hægt sé að festa kaup á nýju tæki og biðla þeir nú til þeirra sem vettlingi geta valdið að leggja þeim lið á lokasprettinum.
Kiwanisklúbburinn hefur staðið fyrir fjölmennum fræðslufundum um krabbamein í körlum á Sauðárkróki í tengslum við Mottumars sl. og þá fengið sérfræðinga til að svara spurningum viðstaddra. Söfnunarátakið sem Kiwanismenn standa fyrir nú er í raun framhald af því verkefni en ætlunin er að bjóða einstaklingum á svæði heilbrigðisstofnunarinnar, sem væru 55 ára á árinu, ókeypis skimun fyrir ristilkrabbameini, lúmskum vágest sem gerir sjaldan boð á undan sér. Samskonar átak hefur verið á Húsavík í boði Lionsklúbbs Húsavíkur.
„Þeir hafa gert þetta síðastliðin þrjú ár og hefur það gefið mjög góða raun þar. Fyrsta árið voru það innan við 50% sem nýttu sér þetta en í dag er þeir komnir yfir 90%,“ sagði Jónas Svavarsson í samtali við Feyki en hann væntir sama árangurs í Skagafirði. „Í því átaki hafa fjórir einstaklingar greinst með forstigskrabbamein og einn með krabbamein, allir greindust því tímanlega svo hægt var að grípa inn í,“ bætti Gunnar Pétursson við.
Þess má geta að á Íslandi greinast að meðaltali 112 einstaklingar á hverju ári með slíkt krabbamein og 40-50 látast af hans völdum. „Við ætluðum fara í sama átak en þegar við leituðum til Heilbrigðisstofnunarinnar þá komumst við að því að gömlu tækin speglunartækin eru ónýt. Því þurfum við að byrja á þessum enda, að safna fyrir fullkomnu speglunartæki, til að geta svo boðið til ókeypis ristilspeglunar,“ sagði Jónas en stefna Kiwanismanna vera með þetta átak næstu fimm árin, að þeim loknum yrði það svo endurmetið.
Tækin sem um ræðir eru þrjú talsins og kosta alls 18 milljónir. Rétt er að taka fram að tækin verða í eigu Kiwanisklúbbs Drangeyjar en í umsjón heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki sem mun sá um rekstur þess, þannig að tækið myndi ekki fara héðan þrátt fyrir sameiningu.
Reikningur hefur verið stofnaður í Sparisjóði Skagafjarðar og geta fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar lagt þessu verkefni lið með því að leggja þar inn: 1125 – 15 – 200055, kt: 590493-2449.