Klífur fjöll til góðra verka
Hildur Valsdóttir hefur alltaf elskað að ferðast og fékk þá stórgóðu hugmynd að nota ferðalögin til að láta gott af sér leiða. Í september á síðastliðnu ári kleif hún Kilimanjaro, hæsta fjall Afríku, og styrkti um leið fátækar stúlkur í Tanzaníu til skólagöngu. Í ár ætlar Hildur að toppa fyrra afrek og klífa hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua í Andesfjöllunum, sem er þúsund metrum hærra en Kilimanjaro.
Í Feyki sem kom út í dag er frásögn Hildar af ferð hennar upp Kilimanjaro, þar sem hún gekk í gegnum bæði súrt og sætt, framtíðaráform hennar og hvernig góðgerðamál hafa gefið lífi hennar gildi.
Ferðina upp fjallið segir Hildur hafa verið æðisleg lífsreynsla, umhverfið var fallegt og maturinn góður. Kilimanjaro er 5.895 metrar á hæð og tók gangan tók fimm daga.
„Gangan var ekkert sérstaklega erfið í byrjun en síðustu metrarnir upp á topp reyndust erfiðir. Við byrjuðum að ganga um miðnætti, en mér hafði ekki tekist að sofna almennilega fyrir það, svaf kannski í klukkutíma og hafði vaknað kl. 7 um morguninn. Við gengum svo í sex tíma í kolniðamyrkri, án pásu og í miklum bratta og um 20 gráðu frosti, þangað til við komum að Stella Point sem er í um 5600 metra hæð,“ rifjar Hildur upp en Stella Point er í um klukkustundar fjarlægð frá Uhuru Peak, sem er toppur fjallsins.
„Þessa sex tíma var svo dimmt að ég sá aldrei „markið“, ég sá bara í hælana á vinkonu minni sem var með mér í för. Þetta var svolítið eins og að ganga á sama staðnum í sex klukkustundir - það var erfitt fyrir hugann,“ viðurkennir Hildur. Þá átti hún einnig erfitt með andardrátt og vatnið hennar fraus, svo hún var vatnslaus í nokkrar klukkustundir.
„Þegar við komum upp á Stella Point vildu leiðsögumennirnir taka af mér bakpokann og helst snúa við. En ég var búin að ákveða að ég ætlaði að ná toppnum og ég ætlaði að bera bakpokann minn þangað sjálf. Þannig að eftir nokkra mínútna tilfinningaþrungna pásu á Stella Point beit ég í vörina og hljóp næstum síðasta spölinn,“ segir Hildur. Hún segist þekkt fyrir að vera heldur þrjósk og að það gerist sjaldan að hún láti í minni pokann.
Viðtalið í heild sinni má lesa í Feyki í dag.
Að neðan má sjá myndband frá göngu Hildar.
https://www.youtube.com/watch?v=N02Jo5FoxQw