„Komið fram við mig eins og manneskju í fyrsta sinn“
Meðferðarheimilið Háholt hefur mikið verið í umræðunni undanfarið þar sem deilt hefur verið um gildi og hlutverk stofnunarinnar. Ýmsum hliðum málsins hefur verið varpað fram í dagsljósið og skoðanir viðraðar. Feyki lék forvitni á að heyra sjónarmið skjólstæðings Háholts og ræddi við Aleksöndru Rós Jankovic sem góðfúslega sagði frá upplifun sinni af meðferðarheimilinu.
Aleksandra ber Háholti söguna vel en þar segist hún hafa uppgötvað að hægt væri að hafa gaman af lífinu edrú. Hún rifjar upp atvik sem rennur henni seint úr minni og varð einskonar vendipunktur.
„Ég var alveg brjáluð og vildi komast í bæinn og lét alla heyra það. Ég sagði að það væri bull að hafa mig þarna því þetta myndi sko ekki breyta neinu fyrir mig. Þá í fyrsta skipti var ég spurð hvað hægt væri að gera til að hjálpa mér. Ég varð bara orðlaus, því ég hafði aldrei verið spurð að þessu áður.“
Þarna segist hún í fyrsta sinn hafa upplifað það að komið væri fram við hana eins og manneskju sem hægt væri að hjálpa en áður hafði henni fundist hún álitin sem „vonlaust keis“, eins og hún orðar það, og einungis í geymslu þangað til hún yrði útskrifuð og myndi missa fótanna á ný.
„Á Háholti var allt gert til þess að hjálpa mér og í fyrsta skipti fékk ég sjálf að fá að koma með hugmyndir að því sem myndi hjálpa mér. Ef þær voru raunhæfar þá var hlustað á þær,“ segir Aleksandra en ítarlegt viðtal við hana má finna í Feyki vikunnar.