Konur geta allt! :: María Sigurðardóttir, leikstjóri Saumastofunnar, í léttu spjalli

Leikfélag Hofsóss frumsýndi í gær hið þekkta leikrit Kjartans Ragnarssonar Saumastofuna sem samið var í tilefni kvennaársins 1975 og hefur ávallt vakið mikla hrifningu leikhúsgesta. Leikstjóri er María Sigurðardóttir, sem langa reynslu hefur af leikstjórn á svið kvikmynda og leikhúss. Feykir fékk Maríu til að svara nokkrum spurningum í vikunni en viðtalið birtist í Feyki sl. miðvikudag.

María sem fædd er og uppalin í Reykjavík, útskrifaðist sem leikkona frá Leiklistarskóla Íslands árið 1983. Hún á tvo syni og tvo sonarsyni. Hún segist vera nýkomin á eftirlaun og flutti til Portúgal sl. haust, þar sem hún býr í litlum bæ á suðurströndinni, við landamæri Spánar. María hefur búið víða um land og heiminn og unnið allskyns störf í gegnum tíðina en flest störfin tengjast leiklist.

„Ég hef leikstýrt fjölda sýninga, í atvinnuleikhúsum og með áhugaleikfélögum um allt land. Ég vann við fjölda íslenskra kvikmynda, sem aðstoðarleikstjóri, t.d. Bíódaga, sem var nú einmitt tekin hér á Höfðaströndinni að miklu leyti. Þá kom ég fyrst á Hofsós og hitti yndislegt fólk hér og í sveitinni,“ segir María en einnig leikstýrði hún kvikmyndinni Regínu árið 2001.

„Það hefur verið dásamlegt að koma hingað aftur og ég hef eiginlega hvergi fundið jafn hlýtt viðmót og yndislegt andrúmsloft eins og hér um slóðir. Ég hef virkilega notið þess að vera hérna. Það er ekki alltaf sem leikstjóri er svo heppinn að vinna með reynsluboltum í áhugaleikfélögum, en þannig er það í þessari uppsetningu á Saumastofunni. Leikararnir vita hvað það þýðir að vera með í leikriti, og gefa sig algjörlega í það. Það er ekkert sjálfsagt og ég er mjög þakklát fyrir vinnuna með þeim. Það sama má segja um tæknifólk og annað starfsfólk sýningarinnar. Leikfélag Hofsóss hefur á að skipa góðu og vönu fólki í þeim störfum. Það eiga t.d. ekki öll áhugaleikfélög svona Eirík F. Arnarsson sem er jafnvígur á leikmynd, lýsingu og hljóð. Það er svo gefandi fyrir leikara og leikstjóra að finna að fólk í bænum er til í að lána okkur hluti, koma og greiða og sminka og svo framvegis.“

Nú var Saumastofan samin fyrir nærri hálfri öld síðan í tilefni af kvennaárinu 1975, á boðskapurinn við enn í dag?
„Því miður á hann að mörgu leyti enn við, þó ýmislegt hafi áunnist auðvitað. Mér fannst spennandi að setja þetta leikrit á svið, vegna tímabilsins, við erum ekkert oft minnt á þennan tíma á leiksviðum landsins. Og auðvitað vegna afmælis Kvennalistans og kvennabaráttunnar. Ég vona svo sannarlega að pólitíkin og karlremban sem kemur fram í leikritinu brýni unga fólkið okkar. Við erum oft búin að fá mikinn aulahroll yfir textanum sem körlum eru lagðir í munn í verkinu, en þetta var svona… ég er nógu gömul til að muna vel eftir þessum körlum sem hræddust jafnréttis- „kjaftæðið“ meira en allt annað.

Karlmönnum sem sögðu fullum fetum að konur vildu ekki hærri laun, konur stæðu ekki saman… og það var að vissu leyti rétt. Það átti þó sem betur fer eftir að breytast með Kvennalistanum og Rauðsokkunum. Ég ber endalausa virðingu fyrir þeim konum sem vörðuðu leiðina okkar, leið unga fólksins okkar. Þær eiga heiður skilinn. Það er þess vegna ágætt að rifja upp pólitík þessa tíma, skoðanir fólks og vita/vona í lokin á sýningunni að þessar konur eigi bjarta framtíð.“

Þið ætlið að frumsýna eftir nokkra daga, við hverju mega leikhúsgestir eiga von á?
„Leiksýningu um verkakonur. Konur sem eiga sér ólíka sögu, læra að standa saman og að bera virðingu hver fyrir annarri. Sýningin er full af fjöri og húmor, en svo fáum við líka að skyggnast inn í fortíð þeirra sem er oft myrk. Ég hugsaði oft á æfingatímanum, hvernig í ósköpunum geta þessar konur lifað af… hvað gefur þeim kraft til að ala upp börnin sín, sinna fyllibyttunni manninum sínum, halda andlitinu út á við og í vinnunni, vinna endalaust til að eiga fyrir hjólhýsi og fallegu heimili. Þær vinna í akkorði, og sumar taka að sér aukavinnu á kvöldin. Konur geta allt, þær trúðu því bara ekki árið 1975. Lokasöngurinn hans Kjartans Ragnarssonar í Saumastofunni segir allt: „Það er vonlaust að halda að allt verði eins, og aldrei að neitt muni breytast.“ Og þar liggur VONIN. Konur geta allt!!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir