Kópur heimsækir Katrínu

Óvæntan gest bar að garði hjá Katrínu Kristjánsdóttur grunnskólakennara og fjölskyldu, á Borðeyri í Hrútafirði, þann 1. maí s.l. Þar var á ferð selskópur sem mættur var við útidyrnar. Þau urðu hans þó fyrst vör kvöldið áður er hann kom á land, en frá þessu segir á nordanatt.is.
Það kvöld fór Katrín til að skoða selskópinn og var hann mjög rólegur og fylgdi henni eftir. Katrín reyndi þá að koma honum til sjávar á ný. Það gekk ekki eftir svo skildi Katrín við selskópinn í fjörunni. Það var svo síðar um kvöldið sem Alda Sverrisdóttir og Helga Dögg dóttir hennar komu til að skoða selskópinn. Þá var gerð önnur tilraun til að koma honum til sjávar.
"Tókst okkur að koma honum alveg í flæðarmálið en ekki lengra, svo þá fórum við bara heim og létum hann eiga sig. Áttum svona frekar von á að hann færi. Hann virtist var um sig þannig að hann vildi ekkert að við værum að snerta hann en var sallarólegur þó maður nálgaðist hann.", segir Katrín.
Svo var það að morgni 1. maí sem Katrín var á leið í sína hefðbundna morgungöngu um klukkan átta að selskópurinn var mættur við dyrnar.
"Ég vissi ekki alveg hvað gera ætti, svo ég fór bara og gekk eftir að hfa spjallað við hann nokkra stund. Þegar ég kom úr göngunni var hann enn við dyrnar, svo þá fór ég og sótti myndavélina og smellti af honum nokkrum myndum og spjallaði við hann rétt eins og lítið barn.", segir Katrín. Hún gerði því tilraun til að koma honum af stað í átt að sjónum en það gekk ekki vel. "Hann fór bara rétt af stað og lagðist þá á miðjan veginn. Þar gat ég auðvitað ekki skilið hann eftir svo ég reyndi að koma honum í fjöruna á nýjan leik en þá virtist hann alls ekki sáttur við það og snéri alltaf aftur í átt að húsinu. Svo gafst ég upp og fór inn í morgunkaffi."Tveimur tímum síðar sér Sævar Örn Sigurbjartsson, maður Katrín, að nokkuð margir selir eru í sjónum fyrir utan fjöruna hjá bænum. Þá fór Katrín enn aftur af stað og rak kópinn út í sjó eftir mikið erfiði og var nokkuð ánægð með það verk.
"En viti menn, tæpum klukkutíma seinna var hann aftur kominn í fjöruna, bara aðeins austar." Fór hún þá að skoða hann og spjalla við hann. Þar sá hún að fyrir utan voru þrír selir og segir hún greinilegt að þeir voru að tala saman því þeir kölluðust á. Hún reyndi því aftur að koma honum til sjávar, án árangurs. Hún hélt því heim á leið en fjölskyldan hafði auga með kópnum áfram. "Margt kom upp í hugann og ýmsir vildu að við færum að gefa kópnum eitthvað að borða eða drekka. Við vorum ekki til í að grípa þannig inn í náttúruna. Svo var kópurinn ekki alveg farinn úr fósturhárunum þannig að hann var ansi ungur og átti auðvitað að vera hjá móður sinni og hvergi annarsstaðar.", segir Katrín.
Að kvöldi 1. maí dróg til tíðinda er Katrín og fjölskylda fóru að athuga með kópinn. Þá sáu þau slóð hans í fjörunni og var greinilegt að leið hans lá í sjóinn. Ekki hafa þau séð til hans síðan og segist Katrín vona að hann hafi farið með þessum þremur selum sem voru fyrir utan.

"Ég sagði nemendum mínum á fimmtudaginn auðvitað að ég tryði því að þetta væri prins í álögum og vonaðist ég til þess næstu daga að finna prins eins og Dimmalimm, en svo heppilega vildi til að við erum nýbúin að lesa söguna um hana. Einn nemandi minn horfði á mig stórum augum og spurði hvort ég væri eins þæg og góð og Dimmalimm. Nú verður tíminn að leiða það í ljós."

 

Þessi skemmtilega frétt og meðfylgjandi mynd birtust á nordanatt.is.

Fleiri fréttir