Kosningar um sameiningu Húnabyggðar og Skagabyggðar

Sveitarfélögin Skagabyggð og Húnabyggð boða til íbúakosninga á grundvelli 119. gr. sveitarstjórnarlaga um sameiningu sveitarfélaga en sveitarstjórnir beggja sveitarfélaga hafa fjallað um álit samstarfsnefndar á grundvelli greinargerðar sem nefndin vann um sameiningu sveitarfélaganna.

Á netsíðum sveitarfélaganna segir að íbúakosning skuli standa yfir í tvær vikur og fara fram dagana 8. til 22. júní 2024. Rétt til þátttöku eiga íbúar sem eiga lögheimili í sveitarfélagi og eru á kjörskrá kl. 12 á hádegi 22 dögum fyrir upphaf atkvæðagreiðslu. Kosningaaldur miðast við 16 ár. Fyrirkomulag kosninga verður auglýst nánar á heimasíðum sveitarfélaganna. Framkvæmd íbúakosninganna byggir á ákvæðum reglugerðar nr. 922/2023 um íbúakosningar sveitarfélaga auk sveitarstjórnarlaga.

Frekari kynning á tillögu samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna fer fram á næstu vikum og boðað verður til íbúafunda í sveitarfélögunum tveimur áður en atkvæðagreiðsla hefst. Miðað er við að íbúafundir verði haldnir dagana 3. og 4. júní nk.

Verði tillaga um sameiningu samþykkt er fyrirhugað að sameining taki gildi 1. ágúst 2024. Ekki er gert ráð fyrir að boðað verði til sveitarstjórnarkosninga, heldur muni sveitarstjórn Húnabyggðar gegna störfum sveitarstjórnar sameinaðs sveitarfélags fram að næstu almennu sveitarstjórnarkosningum. Fram að þeim tíma mun núverandi sveitarstjórn Skagabyggðar starfa sem heimastjórn og jafnframt mun fjallskilanefnd Skagabyggðar starfa áfram í óbreyttri mynd út kjörtímabilið.

Framfaraskref að sameina sveitarfélögin

„Skagabyggð óskaði eftir viðræðum við okkur um mögulega sameiningu sveitarfélaganna, stofnaður var verkefnahópur og síðar samstarfsnefnd sem vann ásamt ráðgjöfum greiningu á samlegðaráhrifum sveitarfélaganna,“ sagði Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar, þegar Feykir spurði hann hvers vegna Húnabyggð telji rétt að sameinast Skagabyggð. „Það er skemmst frá því að segja að góður samhljómur hefur verið í þessari vinnu og teljum við það framfaraskref að sameina sveitarfélögin með það að leiðarljósi að styrkja rekstrargrundvöll og auka möguleika okkar á að bæta þjónustu. Ég tel að okkar rödd muni eflast enn frekar við að berjast fyrir hagsmunum okkar samfélags.“

Finnst þér líklegt að það styttist í að Austur-Húnavatnssýsla verði eitt sveitarfélag? „Já, ég tel það líklegt í fyllingu tímans,“ sagði Guðmundur Haukur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir