KR-ingar höfðu betur eftir framlengdan leik

Tindastólsmenn spiluðu við Íslandsmeistara KR í Vesturbænum í kvöld í Dominos-deildinni í körfubolta. Leikurinn var æsispennandi en KR-ingar náðu að pota leiknum í framlengingu en staðan að loknum venjulegum leiktíma var 78-78. Í framlengingunni vóg reynsla þeirra röndóttu þungt og KR fagnaði sigri, 95-89.

Það var hart barist í leiknum. Tveir leikmenn í hvoru liði voru komnir af velli með 5 villur áður en venjulegum leiktíma lauk, hjá Tindastóli voru það Dempsey og Helgi Viggós. Tindastólsmönnum gekk illa að skora í teignum en Ingvi Ingvars og Helgi Margeirs hittu vel utan 3ja stiga línunnar. Það má þó kannski til sanns vegar færa að Stólarnir fóru illa að ráði sínu á vítalínunni, nýttu aðeins 12 af 24 vítaskotum á meðan KR setti niður 21 af 26.

Heimamenn í KR byrjuðu leikinn mun betur og komust í 12-0. Pétur Birgis gerði fyrstu stig Stólanna og við það vöknuðu strákarnir og söxuðu á forskot KR-inga og héldu aftur af þeim með góðum varnarleik. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 15-14. Darrel Lewis gerði fyrstu fjögur stigin í öðrum leikhluta sem var hraður og fjörugur. Tindastóll komst í 22-28 og síðan seildist Helgi Margeirs í sparibókina og setti niður tvo þrista, 24-34. Vesturbæingar hristu af sér slenið og á meðan Stólarnir gerðu aðeins tvö stig síðustu rúmar fjórar mínútur leikhlutans lék Björn Þór Björgvins við hvern sinn fingur og gerði 15 stig á sama tíma. Staðan í hálfleik 42-36.

KR komst í 53-42 fljótlega í þriðja leikhluta en Tindastóll átti góðan endasprett og fór Ingvi Ingvars á miklum kostum og áður en leikhlutinn var úti munaði aðeins einu stigi á liðunum, staðan 63-62, en þá hafði Ingvi skilað niður tveimur þristum á stuttum tíma. Hann hélt áfram að stríða heimamönnum í fjórða leikhluta og kom Stólunum í 63-72 með þristi og stuttu síðar 68-75. Þá voru fjórar og hálf mínúta eftir og staða Tindastóls vænleg. Þá fór leikur liðsins hins vegar í baklás. Dempsey fékk tvær villur á nokkrum sekúndum og varð að hverfa af velli með alls 5 og mínútu síðar hvarf Helgi Rafn sömu leið og munaði um minna þó hvorugur hafi átt sinn besta dag í sóknarleiknum. KR-ingar söxuðu á forskotið og komust yfir 76-75. Lewis kom Stólunum aftur yfir og Svavar setti síðan niður annað af tveimur vítum þegar 26 sekúndur voru eftir. Staðan 76-78 en Brynjar jafnaði með tveimur vítum og síðan fengu bæði lið tækifæri til að stela sigrinum en mistókst. Staðan 78-78 og leikurinn framlengdur.

Í framlengingunni voru Stólarnir of lengi í gang og KR náði góðu forskoti sem þér létu ekki af hendi.

Þrátt fyrir tap þá var Israel Martin, þjálfari Tindastóls, ánægður með frammistöðu sinna mann. „Ég óska KR til hamingju með sigurinn en ég held að bæði lið muni spila mun betur eftir því sem líður á veturinn. Ég er þó ánægður með byrjunina á tímabilinu hjá okkur og tel að þetta viti á gott.“

Darrel Lewis var stigahæstur Tindastólsmanna með 24 stig og 11 fráköst. Ingvi átti flottan leik og gerði 20 stig og Helgi Margeirs var með 18 stig og þar af 5 þrista. Pétri var mislögð skothöndin í kvöld en hann átti sjö stoðsendingar. Dempsey átti í baráttu við kana KR-inga sem hafði betur en báðir fóru útaf með 5 villur áður en leik lauk. Helgi Rafn náði sér ekki á strik og Darrel Flake kom aðeins við sögu í framlengingunni.

Stig Tindastóls: Lewis 24, Ingvi 20, Helgi Margeirs 18, Dempsey 12, Pétur 6, Flake 5, Helgi Viggós 3 og Svavar 1.

Fleiri fréttir