Kráarkvöld íbúa HSN á Sauðárkróki og Dagdvalar aldraðra

Sungið á Dagdvöl í gær. Mynd: FE
Sungið á Dagdvöl í gær. Mynd: FE

Annað kvöld, fimmtudaginn 13. september, verður bryddað upp á skemmtilegri nýjung hjá Dagdvöl aldraðra í Skagafirði og íbúum á HSN en þá verður haldið kráarkvöld í húsnæði Dagdvalar. Þar er ætlunin að íbúar og notendur Dagdvalar geti átt notalega stund og boðið aðstandendum sínum að koma og njóta með sér.

Það eru þau Stefanía Traustadóttir, forstöðumaður Dagdvalar, Guðbjörg Árnadóttir, deildarstjóri, og sr. Gylfi Jónsson sem eru hvatamenn að þessari kvöldstund en Gylfi hefur undanfarið leitt

Söngurinn ómaði á sjúkrahúsinu í gær. Mynd:FE

söngstundir með íbúum og þjónustuþegum á Dagdvölinni einu sinni í viku en frá því er sagt í nýjasta tölublaði Feykis sem kemur út í dag. Þau hafa bæði reynslu af sambærilegum kráarkvöldum, Gylfi frá því hann var heimilisprestur á Hrafnistu í Hafnarfirði og síðar á Hlíð á Akureyri en þar vann Stefanía einnig áður en hún kom til starfa á Sauðárkróki. „Það sem þessi samvera gerir er að þarna getur fólk setið með sínum nánustu án þess að þurfa að setja á eitthvað langar samræður, fólk getur setið og raulað þessa gömlu texta og fengið sér sérríglas eða öl og átt þarna gæðastund, það hefur verið markmiðið með þessu kráarkvöldi. Við ætlum að sjá hvernig til tekst en mér þætti ákaflega vænt um ef við gætum átt ein tvö til viðbótar fyrir jól,“ segir Gylfi.

Kráarkvöldið hefst klukkan 19:00 og stendur til 21:00. Léttar veitingar verða til sölu og það verður enginn annar en sveiflukóngurinn sjálfur, Geirmundur Valtýsson, sem sér um tónlistarflutninginn.

Athygli er vakin á því að ekki er boðið upp á akstur fyrir þjónustuþega Dagdvalar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir