Krabbameinsfélagi Skagafjarðar afhent áheit

Stoltur hópur ásamt kennurum sínum og þeim Döllu og Söru frá Krabbameinsfélagi Skagafjarðar. Aðsend mynd.
Stoltur hópur ásamt kennurum sínum og þeim Döllu og Söru frá Krabbameinsfélagi Skagafjarðar. Aðsend mynd.

Nemendur 7. og 8. bekkjar í Varmahlíðarskóla afhentu í gær Krabbameinsfélagi Skagafjarðar upphæð þá sem þeir söfnuðu með áheitahlaupi í síðustu viku. Ávísunin var engin smásmíði og upphæðin eftir því en krökkunum tókst með framtaki sínu að safna veglegri upphæð, 900 þúsund krónum, sem rann óskipt til Krabbameinsfélagsins.

Það voru þær sr. Dalla Þórðardóttir og Sara Valdimarsdóttir sem veittu ávísuninni viðtöku og þakkaði Dalla, fyrir hönd félagsins, innilega fyrir veglega gjöf og sagði nemendum lauslega frá starfi félagsins. Að sögn Döllu verður peningunum varið til ráðgjafar og íbúðastyrkja fyrir krabbameinssjúklinga sem þurfa að dvelja á höfuðborgarsvæðinu vegna meðferðar.

23 km leið að baki. Mynd:FE

Íris Olga Lúðvíksdóttir, kennari og umsjónarmaður verkefnisins, segist að vonum vera mjög ánægð og stolt af krökkunum og þakkar öllum þeim sem hétu á þá og þar með Krabbameinsfélag Skagafjarðar.

Það er óhætt að segja að krakkarnir megi vera stoltir af framtaki sínu en þetta er í fjórða skipti sem nemendur 7. og 8. bekkjar í Varmahlíðarskóla standa fyrir álíka söfnun.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir