Krækjur gerðu gott mót

Krækjur í allri sinni dýrð. Mynd aðsend.
Krækjur í allri sinni dýrð. Mynd aðsend.

Dagana 9.–11. maí sl. fór Öldungamót Blaksambands Íslands fram í íþróttahúsinu Varmá í Mosfellsbæ. Mótið er haldið ár hvert og var þetta í 47. skiptið sem það fer fram. Að þessu sinni var það í höndum Blakdeildar Aftureldingar en þetta er stærsta blakmót ársins fyrir fullorðna einstaklinga þar sem leikgleði og skemmtun er í fyrirrúmi. Yfirskrift mótsins var gleði og var vonast til þess að liðin mættu til leiks í glaðlegum búningum og mátti sjá þá ýmsa skrautlega – bæði ljóta og flotta.

Einu skilyrðin fyrir þátttöku á þessu móti er að keppendur þurfa að vera orðnir 30 ára og voru hátt í 1.300 keppendur alls staðar af landinu mættir til leiks, alls 150 lið. Leikið var á fimmtán völlum og voru spilaðir 453 leikir í 15 kvennadeildum og sjö karladeildum. Dagskráin var hin glæsilegasta en mótið hófst stundvíslega kl. 8:30 á uppstigningardag og lauk með lokahófi og balli á laugardagskvöldinu þar sem var dansað og sungið langt fram á nótt.

Krækjurnar frá Sauðárkróki létu sig að sjálfsögðu ekki vanta á þessa gleði og hafa sent tvö lið til keppni í fjöldamörg ár og var engin undantekning í ár. Tólf krækjur skunduðu á mótið og lið A samanstóð af sex reyndum og feykiflottum Krækjum sem spiluðu í annarri deildinni. Þær náðu að vinna fjóra leiki en töpuðu tveim og voru þessi úrslit þeim mikið gleðiefni því á næsta ári spila þær þá í sömu deild sem er frábær árangur hjá þeim. 

Lið B spilaði aftur á móti í sjöundu deild sem gekk ekki alveg jafn vel því liðið tapaði öllum sínum leikjum. Þetta er töluvert reynsluminna lið sem á mikið inni því þær hafa ekki náð að spila mikið saman í vetur til að stilla saman strengi sína en það verður gaman að sjá hvernig þeim gengur í áttundu deildinni á næsta ári.

Hver segir svo að það þurfi að vinna leiki til að hafa gaman – það er bara bónus!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir