Kristinn H. endurvekur Fönklistann

Kristinn H Gunnarsson er genginn í barndóm og til liðs við Fönk listann

BB segir frá því að Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður utan þingflokka í NV-kjördæmi sem fékk ekki brautargengi í prófkjöri Framsóknarflokksins um miðjan mánuðinn hefur ákveðið að bjóða sig fram í alþingiskosningunum sem fram fara 25. apríl undir merkjum Fönklistans.

Eins og kunnugt er var Fönklistinn skipaður ungmennum sem buðu sig fram við sveitarstjórnarkosningarnar á Ísafirði fyrir rúmum áratug. Fönklistinn kom, sá og sigraði og fékk tvo menn kjörna í bæjarstjórn. „Það er rétt að ég hef ákveðið að bjóða mig fram undir merkjum Fönklistans. Á þessum tímum þegar ráðamenn þjóðarinnar tala hver um annan þveran um að við verðum að ganga í Evrópusambandið, er fátt annað til ráða en að endurvekja listann,“ segir Kristinn sem sagði sig úr Framsóknarflokknum í gær.

„Ég verð með kynningarfund í Alþýðuhúsinu á Ísafirði kl. 20 í kvöld og vona að sem flestir láti sjá sig og kynni sér þær hugmyndir sem ég hef um framtíð Vestfjarða. Ég mun einungis bjóða fram í NV-kjördæmi og verður framboðslistinn klár fyrir helgina,“ sagði Kristinn.

Hilmar Magnússon, fyrrverandi oddviti Fönklistans, staðfestir endurreisn listans og samstarfið við Kristinn. „Kristinn kom að máli við okkur og eftir að hafa tekið þetta fyrir miðstjórninni féllumst við á málaleitan hans.“ Hilmar segir Kristinn eiga vel við Fönklistans. „Grunngildi Fönklistans var að einstaklingar gætu leikið sín eigin stef en þó í samhljómi við samfélagið. Kristinn hefur getað það hingað til og er öflugur maður. Við treystum honum fullkomlega til að halda merkjum uppi merkjum Fönklistans.“

Kristinn Hermannsson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Fönklistans, segir málaleitan nafna síns upphaflega hafa mætt vissum efasemdum meðal Fönklistamanna. Við frekari skoðun hafi kostir framboðsins hins vegar komið sífellt betur í ljós. „Nú blasir við ný staða sem gamla pólitíkin mun aldrei geta unnið úr. Fönklistinn er ekki bundinn af sögulegri hugmyndafræði og getur látið reyna á lausnir sem kæmust aldrei í gegnum skapalón sjálfstæðisstefnu eða félagshyggju. Nafni minn er rétti maðurinn til að taka slaginn af því hann þekkir gamla kerfið vel en hefur sagt skilið við það og vill horfa til framtíðar.“

Aðspurður segir hann hugmyndir Fönklistans í atvinnumálum hafa elst vel. „Menn verða að horfa á þessi mál í samhengi. Það getur enginn haldið því fram í dag að elgjarækt hafi verið verri hugmynd en alþjóðleg fjármálamiðstöð. Mönnum er náttúrlega tamt að vera endalaust í niðurrifi en í þessu árferði er það glæpsamleg vanræksla að láta ekki reyna á geggjaðar hugmyndir“, sagði Kristinn Hermannsson.

Fleiri fréttir