Króksbrautarhlaup á laugardaginn

Frá Króksbrautarhlaupi 2016. Mynd: Sigrún Fossberg.
Frá Króksbrautarhlaupi 2016. Mynd: Sigrún Fossberg.

Króksbrautarhlaupið verður hlaupið næstkomandi laugardag, 30. september, en það er árlegur viðburður í Skagafirði og renna þátttökugjöld til góðra málefna. Hægt er að velja um nokkrar vegalengdir á leiðinni milli Sauðárkróks og Varmahlíðar og geta þáttakendur valið hvort þeir vilja ganga, hlaupa eða hjóla, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum.

Rútuferð í boði Suðurleiða verður frá Sundlaug Sauðárkróks kl. 9:00 og verður hleypt úr henni á nokkrum stöðum á leiðinni, við Staðarrétt, Melsgil, Kjartansstaði og loks við Glaumbæ. Hægt verður að ferja eitthvað af hjólum með rútunni en að sögn Árna Stefánssonar, umsjónarmanns hlaupsins, er algengt að þeir sem hjóla lengi túrinn og hjóli báðar leiðir. Rútan fer ekki lengra en í Glaumbæ en þeir sem vilja fara lengri leið geta það að sjálfsögðu en verða þá að koma sér á byrjunarreit upp á eigin spýtur. Stefnt er að því að allir séu komnir að endastöð við Sundlaug Sauðárkróks í síðasta lagi kl. 12:00. Að hlaupi loknu fá þátttakendur frítt í sund og einnig drykk og ávaxtasalat í boði Skagfirðingabúðar.

Króksbrautarhlaupið hefur verið haldið í um það bil 20 ár og hefur verið lokaþátturinn í sumarstarfi skokkhóps Árna Stefánssonar. Síðustu tólf til þrettán árin hefur halupið verið söfnunarhlaup þar sem ágóðinn rennur til styrktar góðu málefni, að þessu sinni verður fénu varið til að styrkja Jökul Mána, lítinn dreng sem fæddist í sumar, sjö vikum fyrir tímann, og er að fara í hjartaaðgerð í Svíþjóð nú í byrjun október. Hlaupið er öllum opið og einnig geta allir lagt lið, sama hvort þeir reima á sig hlaupaskóna eða ekki en þátttökugjald er 1.000 krónur.

Útlit er fyrir hið besta hlaupaveður en að sjálfsögðu er mikilvægt að búa sig eftir veðri og einnig er æskilegt að vera í áberandi litum fötum og ekki má gleyma að fylgja umferðarreglunum.

Fleiri fréttir