Kvennaskólinn fær stórgjöf

Vinir Kvennaskólans á Blönduósi tóku í gær á móti stórgjöf, húsbúnaði Elínar Briem sem var á heimili hennar á Sauðárkróki árið 1900 og eflaust  fyrir þann tíma. Gefendur eru Dr. Helgi Sæmundsson verkfræðingur í Stuttgart og systur hans  Sigurlaug Sæmundsdóttir Hampe í Munchen og Elín Briem Sæmundsdóttir Finborud í Osló.

Sæmundur faðir þeirra systkinanna var fóstursonur Elínar Briem. Munir þessir eru gefnir minjastofu Kvennaskólans sem “ Vinir Kvennaskólans” eru að koma á fót og er það eindregin ósk gefenda að munirnir verði varðveittir í Kvennaskólanum á Blönduósi.

Munirnir eru: Tvö borð, sófi og fimm stólar, skatthol, málverk sem sýslunefndir Húnvetninga og Skagfirðinga gáfu Elínu, auk fjölmargra smærri hluta m.a. eru tveir mjög gamlir askar.

Elín Briem starfaði í 18 ár sem forstöðukona Kvennaskóla Húnvetninga, þó ekki samfleytt því aðstæður höguðu því þannig að hún kom fjórum sinnum til starfa við skólann. Fyrst starfaði hún í eitt ár þegar skólinn var á Lækjarmóti , fór síðan til Danmerkur til náms í tvö ár. Þá tók hún við skólanum sem fluttur var að Ytri-Ey og samdi námsskrá ásamt skólanefndarmönnum og skipulagði starfsemi hans frá grunni. Varð skólinn fljótt landskunnur og vinsæll undir hennar stjórn og fjöldi stúlkna flykktist að skólanum til að njóta menntunar. Vorið 1895 giftist Elín Sæmundi Eyjólfssyni og hætti þá störfum við skólann og flutti til Reykjavíkur. Sæmundur dó tæpu ári síðar. Árið 1901 kom Elín aftur til starfa við Kvennaskólann og stýrði honum í tvö ár, giftist þá Stefáni Jónssyni á Sauðárkróki.  Hann missti hún árið 1910 og tók þá enn við stjórn Kvennaskólans því Húnvetningar sóttust mjög eftir henni til starfa. Hún hætti árið 1915 vegna heilsubrests.

Elín Briem þótti framúrskarandi stjórnandi og kennari og naut skólinn mikils álits undir hennar stjórn. Hún  ritaði Kvennafræðarann sem gefinn var út fjórum sinnum og náði mikilli útbreiðslu. Bókin hafði mikil áhrif á íslenska matargerð, hússtjórn og hreinlæti.

Það er mikill heiður fyrir Húnvetninga að fá að taka á móti þessari veglegu gjöf til minningar um mikilhæfan frumkvöðul í starfi Kvennaskólans og fá að varðveita hana. Gefendur eiga mikinn heiður skilinn.

Þess má geta að flutningskostnaður frá Þýskalandi til Blönduóss var að fullu greiddur af gefendum. Stjórn Vina Kvennaskólans tók á móti sendingunni ásamt Arnari Þór Sævarssyni bæjarstjóra  Blönduóss og fleirum.

/Húni.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir