Kynningafundur um háskólanám í ævintýraferðamennsku

Íþróttaakademía Keilis verður með kynningarfund um nýtt leiðsögunám á háskólastigi í ævintýraferðamennsku í Árskóla á Sauðárkróki, miðvikudaginn 25. júní kl. 12 - 13. Allir eru velkomnir. Leiðsögunámið (Adventure Sport Certificate) er kennt í samstarfi við Thompson Rivers University (TRU) í Kanada.

Að sögn Arnbjörns Ólafssonar frá Keili hófst kennsla hins nýja leiðsögunáms sl. haust og hefur það vakið mikla athygli en kennslan fer fram um allt land.

„Um er að ræða átta mánaða nám sem hentar vel þeim sem hafa mikinn áhuga á ferðamennsku og útivist við krefjandi aðstæður. Fyrsti árgangur námsins útskrifast í dag, en þá munu 13 manns fá staðfestingu á að hafa lokið náminu. Allir nemendurnir hafa nú þegar fengið vinnu í greininni í sumar, auk þess sem nokkrir hafa fengið inngöngu í framhaldsnám í Thompson Rivers University í haust,“ segir Arnbjörn. 

Nemendur öðlast alþjóðleg réttindi til starfa við ævintýraleiðsögn og hafa mikla möguleika á að vinna á fjölbreyttum starfsvettvangi víða um heim. Námið byggir að miklu leiti á verklegri kennslu í íslenskri náttúru auk fræðilegs hluta sem fer fram í Keili á Ásbrú.

Skagafjörðinn segir Arnbjörn vera sérstaklega spennandi þegar það kemur að ævintýraferðamennsku með bestu rafting ár landsins, auk þess sem hann býður upp á mikla möguleika í útivist og sjókajakferðum.

„Námið er góður grunnur að helstu þáttum ævintýraferðamennsku. Það hentar þeim sem hyggja á starfsframa í ört vaxandi starfsgrein eða áframhaldandi háskólanám í faginu.“

TRU er einn virtasti háskóli í heimi sem býður upp á nám í ævintýraleiðsögn og útskrifast nemendur námsins með alþjóðlegt skírteini frá þeim (Adventure Sport Certificate). Allar einingar námsins eru metnar í framhaldsnám við skólann á sviði ævintýraferðamennsku, svo sem Adventure Guide Diploma, Adventure Management Diploma eða í fullt nám til BS gráðu í Adventure of Tourism Management.

Nánari upplýsingar á www.adventurestudies.is.

Fleiri fréttir