Lækkun sorpgjalda í Skagafirði

Sumarlognið út að austan, MYND: ÓAB
Sumarlognið út að austan, MYND: ÓAB

Aukin flokkun og minni urðun

Á fundi sveitarstjórnar 15. maí sl., var staðfest fundargerð landbúnaðar- og innviðanefndar frá 3. maí þar sem lagt var til að gjald vegna reksturs söfnunarstöðva vegna íbúðarhúsnæðis, í gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í Skagafirði, lækki um 9,8%, sem er 3.500 kr. lækkun á gjaldinu frá og með 1. janúar 2024. Sé þessi lækkun skoðuð með hliðsjón af áætlaðri verðlagshækkun milli áranna 2023 og 2024 gæti þetta verið um 10% lækkun á sorpgjöldum heimila sveitarfélagsins árið 2024, frá því sem áætlanir gerðu ráð fyrir miðað við þá verðbólgu sem er í landinu.

Ástæður lækkunar gleðiefni

Þegar tölur eru skoðaðar kemur í ljós að heimili og fyrirtæki hafa að meðaltali dregið úr urðun um 18% milli áranna 2022 og 2023. Ef eingöngu er horft á magn sorps sem fer til urðunar frá heimilum þá lækkar það um 25% milli ára sem er frábær árangur og sá besti af þeim sveitarfélögum sem urða hjá Norðurá.

Íbúum má þakka fyrir þessa lækkun á gjaldskrá heimila en þeir hafa flokkað meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Af heimilissorpi árið 2023 var 46% alls úrgangsmagns flokkað, þar sem matarleifar, pappír og plast eru umfangsmestu flokkarnir. Árangurinn er góður og tölur frá fyrsta ársfjórðungi þessa árs benda til þess að hlutfall endurvinnslu fari hækkandi. Einnig hefur hjálpað til að stjórn Úrvinnslusjóðs hækkaði greiðslur frá upphaflegri gjaldskrá sinni vegna sérstakrar söfnunar um 15%, afturvirkt frá 1 janúar 2024 og um 7,5% afturvirkt vegna ársins 2023, til samræmis við vísitölubreytingar.

Landbúnaðar- og innviðanefnd lýsir yfir mikilli ánægju með þá þróun sem í gangi er í sorpmálum í Skagafirði og megum við íbúar Skagafjarðar vera stolt af þessu fyrsta ári í nýju kerfi. Verkefninu er þó hvergi nærri lokið og þurfum við öll að halda áfram á þessari braut til að stefna að aukinni endurvinnslu og frekari lækkun gjalda.

Höldum áfram að gera betur

Með aukinni endurvinnslu erum við að varðveita og fara betur með auðlindir sem hægt er að nýta aftur með margvíslegum hætti. Aukin flokkun og endurvinnsla hjá einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum er mikilvægt verkefni sem við getum barið okkur á brjóst fyrir að taka alvarlega og gera vel. Eitt sinn notuðum við ekki sætisbelti í bílum en í dag er það orðinn sjálfsagður hluti af okkar lífi. Áður en við vitum af verður flokkun og endurvinnsla úrgangs eðlilegur hluti af lífi hvers og eins, hvort sem er í leik eða starfi. Það er hagsmunamál okkar allra að auka endurvinnslu og endurnýtingu.

Í lokin má svo minna á umhverfisdaga sveitarfélagsins sem verða haldnir frá 7-14. júní nk. en þá daga er það sameiginlegt verkefni allra að fegra nærumhverfi sitt með tiltekt, málun eða öðru sem gerir fallegt hérað enn fegurra.

Landbúnaðar- og innviðanefnd Skagafjarðar
Einar E. Einarsson
Sólborg S. Borgarsdóttir
Hildur Þ. Magnúsdóttir
Sveinn Þ. Finster Úlfarsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir