Læknaskortur ógnar heilbrigðisþjónustu í Skagafirði
Út er komin ársskýrsla fyrir árið 2013 fyrir Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að sameina stofnanir á Norðurlandi í eina stofnun og er gert ráð fyrir að sameiningin taki gildi 1. september 2014.
Stofnunin heldur inn í árið 2014 með neikvætt eigið fé um 60 milljónir króna. Heilbrigðisráðherra stefnir að sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi og er gert ráð fyrir að það gerist 1. september 2014. Sveitarfélagið Skagafjörður hefur farið fram á viðræður við ráðuneytið um yfirtöku á HS. Hvernig þau mál fara mun væntanlega skýrast á næstu mánuðum.
Læknaskortur ógnar heilbrigðisþjónustu í Skagafirði. Stöður lækna hafa ítrekað verið auglýstar en engar umsóknir borist sem er mikið áhyggjuefni. Nú eru eingöngu þrír fastráðnir læknar við stofnunina en reynt er að manna það sem á vantar með afleysingalæknum. Gert er ráð fyrir fimm fastráðnum læknum.
Gjafir og styrkir
Kvenfélag Rípurhrepps færði stofnuninni 500.000 kr., Samband skagfirskra kvenna færði stofnuninni 290.000 kr. og Kvenfélag Staðarhrepps færði stofnuninni 100.000 kr. Keypt voru tvö hjúkrunarrúm ásamt náttborðum og öðrum fylgihlutum, auk sturtustóls. Lionsklúbburinn Björk færði Heilbrigðisstofnuninni Sauðárkróki tvær loftdýnur að gjöf. Dvalarheimili HS fékk að gjöf hljóðnema með hátalara til að auðvelda upplestur sem börn og afkomendur hjónanna Sigríðar Hjálmarsdóttur og Sverris Björnssonar gáfu með þakklæti fyrir umönnun og umhyggju sem þau fengu þann tíma sem þau dvöldu þar. Gíslíana Guðmundsdóttir íbúi á Dvalarheimili HS og dætur hennar færðu dvalarheimilinu að gjöf ágóða af sölu handverks þeirra mæðgna á basar sem haldinn var í félagsaðstöðu dvalarheimilisins þann 24. nóvembers.l. Peningarnir, alls eitthundrað þúsund krónur, voru notaðir til að gera íbúum dvalarheimilisins glaðan dag.
Framkvæmdir
Á árinu 2014 er fyrirhugað að gera við glugga heilsugæslu. Reiknað er með að lyfta sjúkrahúss verði endurnýjuð en hún er orðin 54 ára gömul og hefur þjónað stofnuninni vel. Auk þess verður haldið áfram lóðaframkvæmdum og viðhaldi húss. Þá verður Raftahlíð 62b tekin í gegn að innan. Fasteignir ríkissjóðs sjá um fasteignir stofnunarinnar og eru framkvæmdir á vegum þeirra.
Hér er hægt að sjá skýrsluna í heild sinni.