Lambakjötskynning í París - Reynt að ná inn á vel borgandi markaði

Kristján Andri Stefánsson sendiherra Íslands í París og Friðrik Sigurðsson matreiðslumaður hjá Utanríkisráðuneytinu stóðu fyrir kynningu á íslensku lambakjöti í sendiráði Íslands í París fyrir skömmu og fengu Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga í lið með sér. Þangað var fólki stefnt sem hefur ýmislegt til málanna að leggja í matvælabransanum og heppnaðist kynningin mjög vel að sögn Óla Viðars Andréssonar sölustjóra Kjötafurðastöðvarinnar.
Óli Viðar segir að hvatinn að kynningunni sé m.a. annars sá að sendiherra Íslands í París, sé mikil áhugamaður um að leggja íslenskum framleiðendum lið í að koma vörum sínum á framfæri í Frakklandi. „Friðrik Sigurðsson matreiðslumeistari og bryti utanríkisráðuneytisins var fenginn í nokkurra daga verkefni í París þar sem verið var að kynna afurðir frá íslensku sjávarfangi og Friðrik sem hefur unnið með okkur í nokkrum kynningum í Rússlandi hafði samband við okkur og bauð okkur að vera með,“ segir Óli Viðar en boðið var upp á rétti unna úr vöðvum úr framparti, læri og hrygg en einnig lifur og hangiket.
Hann segir unnið að því markmiði að ná inn á vel borgandi markaði og selja íslenska lambakjötið sem sérstaka vöru. „Það gerum við með því að selja söguna með. Það tekur tíma og mjakast hægt og rólega í rétta átt. Tíminn verður svo að leiða það í ljós hvort við náum árangri á þessum markaði.“
Óli Viðar segir þakkarvert þegar utanríkisþjónusta Íslands er tilbúin til að bakka fyrirtæki upp og hjálpa til með að opna á möguleika fyrir útflutning á afurðum á erlendri grundu.
„Því höfum við fengið að kynnast m.a í Rússlandi, Japan og núna Frakklandi og reyndar fleiri löndum.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.