Lán frá LS til Svf. Skagafjarðar dæmt ólöglegt
Hæstiréttur Íslands dæmdi á fimmtudaginn að lán Lánasjóðs sveitarfélaga (LS) til Sveitarfélagsins Skagafjarðar hefði falið í sér ólögmætt gengislán í erlendri mynt. Skulu eftirstöðvar lánsins því vera 103,8 milljónir króna í stað 218,3 milljóna króna eins og LS hélt fram. Frá þessu var sagt í Morgunblaðinu í gær.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins staðfesti hæstiréttur með þessu dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu. Haft er eftir framkvæmdastjóra LS, Óttari Guðjónssyni, að hann telji dóminn ekki hafa fordæmisgildi vegna annarra samninga til sveitarfélaga. Segir Óttar málið einstakt vegna orðalags í samningnum þar sem ekki komi skýrt fram hversu mikið væri lánað í dollurum og evrum. Segir Óttar þetta hafa verið gert í góðri trú og sakar fulltrúa sveitarfélagsins um orðhengilshátt og að þeir haldi því fram að lánið hafi verið tekið í krónum, en slíkt lán hafi á sínum tíma verið afþakkað þó það hafi staðið til boða.
Lögmaður sveitarfélagsins í málinu, Einar Hugi Bjarnason hæstaréttarlögmaður, segir hins vegar í samtali við Morgunblaðið að hann telji fulla ástæðu fyrir önnur sveitarfélag í landinu að fara mjög gaumgæfilega yrir þá samninga sem gerðir hafa verið við lánasjóðinn, í kjölfar þessarar niðurstöðu hæstaréttar.