Landsbyggðarráðstefnan Eldhugar FKA á Akureyri.

Ríkidæmi landsbyggðarinnar verður rætt á ráðstefnu Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA, á opinni Landsbyggðarráðstefnu FKA sem haldin verður á Akureyri þann 23. september nk. Ráðstefnan ber nafnið Eldhugar en fyrirlesarar verða konur um allt land sem hafa hugrekki og víðsýni að vopni og hafa náð að töfra fram spennandi nýsköpun og tækifæri, eins og segir í tilkynningu félagsins.

„Við fáum að heyra sögur af sigrum og áskorunum, fáum tæki til að efla tengslin og láta til okkar taka á spennandi tímum þar sem ólíkar raddir og skapandi nálganir um mikilvæg viðfangsefni samtímans,“ segir ennfremur í tilkynningu FKA.

Ráðstefna verður haldin í Háskólanum á Akureyri kl. 15 og er opin almenningi en að henni lokinni heldur dagskrá áfram fyrir félagskonur FKA með kvöldverði og tengslamyndun. Á laugardeginum verður farið í fyrirtækjaheimsóknir til öflugra félagskvenna á Norðurlandi, Skógarböðin heimsótt og konur af landinu öllu sameinast í höfuðstað Norðurlands til að upplifa orkuna sem gustar þar af konum, eiga samtalið og stilla saman strengi.

,,Það er svo margt gott að gerast staðbundið um land allt þar sem öflugir einstaklingar af öllum kynjum eru að ryðja brautir og það er bæði gaman að vekja athygli á því sem vel er gert en einnig að láta vita af sér um land allt. Það er mikilvægt að skapa nýtt en líka kynna það sem til er og átta okkur á að við getum öll haft áhrif á þróun mála í stóru og smáu. Mörg okkar sinna vinnu og verkefnum frá eldhúsborðinu,“ segir Jóhanna Hildur Ágústsdóttir eigandi Matlifunar og formaður FKA á Norðurlandi.

Almenningur er hvattur til að mæta í Háskólann á Akureyri 23. september kl. 15 eða nýta sér streymi ráðstefnunnar.

Skráning fer fram HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir