Leikfélagið komið með varanlegt húsnæði

Sigurlaug Dóra og Sigfús Ingi handsala samninginn sl. föstudag. Mynd: PF
Sigurlaug Dóra og Sigfús Ingi handsala samninginn sl. föstudag. Mynd: PF

Á fundi byggðarráðs Skagafjarðar fyrir helgi var lagður fram kaupsamningur á milli Leikfélags Sauðárkróks sveitarfélagsins sem selur leikfélaginu 50% óskiptan eignarhlut í fasteigninni Borgarflöt 17E, Sauðárkróki. Söluverð er 7.500.000 kr. Byggðarráðið samþykkti framlagðan kaupsamning sem undirritaður var daginn eftir af Sigfúsi Inga Sigfússyni sveitarstjóra og Sigurlaugar Dóru Ingimundardóttur, formanns LS.

„Þessi aðstaða breytir mjög miklu fyrir Leikfélagið. Við fáum öruggt pláss fyrir dótið okkar og aðstöðu fyrir fundi, samlestur og samhristing. Húsnæðismál hafa verið í frekar miklu brasi undanfarin árin eða alveg síðan við urðum að flytja út úr Leikborg. Undanfarið hefur dótið okkur verið í það litlu rými að við getum ekki með góðu móti gengið um það. Þetta verður því mjög mikil munur.“ segir Sigurlaug Dóra.

Æfingar eru hafnar á haustverkefni Leikfélagsins, Ævintýrabókin, sem er skemmtileg sýning sem hentar fyrir alla í fjölskyldunni. Sigurlaug Dóra segir að 25 leikarar stígi á svið í leikritinu en alls koma yfir 40 manns að sýningunni. „Það verður því mikil leikgleði í Bifröst á komandi vikum,“ segir hún.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir