Leikskóli klár 1. mars 2010

Byggðaráð Skagafjarðar hefur samþykkt í ljósi breyttra aðstæðna á fjármagnsmarkaði að leggja til við sveitarstjórn að horfið verði frá fyrri samþykkt um að framkvæmd byggingar nýs leikskóla á Sauðárkóki verði boðin út með þeim hætti að byggingaraðili byggi og leigi sveitarfélaginu skólann.

Segir í fundargerð ráðsins að lánamarkaður til slíkra framkvæmda sé nánast, ef ekki alveg, lokaður og sú leið því ekki fær. Byggðaráð telur að við þessar aðstæður sé rétt og hagkvæmast að sveitarfélagið fjármagni verkið og framkvæmi. Leggur ráðið  til að sveitarstjórn heimili allt að 500 m.kr. lántöku hjá Lánasjóði sveitarfélaga til framkvæmdarinnar. Byggðarráð felur sveitarstjóra að bjóða völdum aðilum í Skagafirði að gera tilboð í verkið. Jafnframt samþykkir byggðráð að í verkskilmálum verði gert ráð fyrir að verklok verði 1. mars 2010. Í ljósi aðstæðna í atvinnu- og efnahagsmálum er mælst til þess að bjóðendur beini viðskiptum til þjónustuaðila í Skagafirði með það að leiðarljósi að ávinningur af framkvæmdinni verði eftir heima í héraði.

Fleiri fréttir