Leitað eftir þátttakanda í Norðurslóðaverkefni

Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi hjá SSNV. Mynd:ssnv.is
Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi hjá SSNV. Mynd:ssnv.is

SSNV er þátttakandi í Norðurslóðaverkefni sem kallast Digi2Market, sem útfærst gæti á íslensku sem stafræn leið til markaðar. Verkefninu er ætlað að taka á ýmsum áskorunum sem fyrirtæki á jaðarsvæðum kunna jafnan að glíma við, svo sem smæð markaðar, fjarlægð frá markaði og einangrun. 

Markmið verkefnisins er m.a. að þróa nýjungar í stafrænum markaðs- og söluhugbúnaði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, aðstoða þau við að nýta sér stafræna möguleika og þróa viðskiptamódel sem stuðlar að umhverfisvænum rekstri. Þá er enn fremur stefnt að því að þátttaka í verkefninu stuðli að alþjóðlegum vexti fyrirtækja. 

Aðrir þátttakendur í verkefninu eru WESTBIC, ICBAN, Udaras na Gaeltachta, University of Ulster og Karelia University.

Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn í Galway dagana 13.-14. nóvember sl. Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, og Sveinbjörg Rut Pétursdóttir, atvinnuráðgjafi og tengiliður verkefnisins, sóttu fundinn fyrir hönd SSNV. Farið var yfir skipulag komandi mánaða og drög að verkáætlun listuð upp. 

Fyrsti fasi verkefnisins er að fara í gang og er leitað að einu fyrirtæki á Norðurlandi vestra sem hefur áhuga og vilja til að gera reksturinn umhverfisvænni og skuldbinda sig jafnframt til þátttöku í verkefninu næstu 2 árin. Viðkomandi þarf að hafa áhuga og vilja til að fara í naflaskoðun á rekstri síns fyrirtækis og vinnu við að greina stöðu þess í dag og skoða leiðir til að gera reksturinn umhverfisvænni. Notast verður við módel með það að markmiði að finna umhverfisvænni leiðir, en módelið verður þróað innan verkefnisins. Fyrirtækið hefði svo kost á því að halda vinnunni áfram inn í annan fasa. 

Í öðrum fasa verður kallað eftir fleiri fyrirtækjum til þátttöku þar sem meiri áhersla verður m.a. á stafræna markaðssetningu. Áætlað er að auglýsa þann hluta betur á komandi mánuðum. 

Áhugasömum er bent á að hafa samband við Sveinbjörgu Pétursdóttur á sveinbjorg@ssnv.is. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir