Lestrarstefna Skagafjarðar - Lestur er börnum bestur

Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir og Anna Steinunn Friðriksdóttir kynna lestrarstefnuna á fræðsludegi skólanna í Varmahlíð. Mynd: FE.
Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir og Anna Steinunn Friðriksdóttir kynna lestrarstefnuna á fræðsludegi skólanna í Varmahlíð. Mynd: FE.

Lestur er börnum bestur er yfirskriftin á Lestrarstefnu Skagafjarðar sem út kom nú á dögunum en frumkvæði að gerð hennar áttu deildarstjórar sérkennslu í grunnskólum fjarðarins.

Vorið 2015 var stofnað læsisráð undir forystu Sigurlaugar Rúnar Brynleifsdóttur, deildarstjóra sérkennslu við Grunnskólann austan Vatna, þar sem allir leik- og grunnskólar áttu fulltrúa, auk talmeinafræðings og fulltrúa frá Fræðsluskrifstofu og fundaði það ráð mánaðarlega. Síðustu tvö skólaár störfuðu læsisteymi í öllum grunn- og leikskólum fjarðarins og höfðu þeir m.a. það hlutverk á sinni könnu að halda utan um gerð stefnunnar í hverjum skóla. Læsisráð tók síðan vinnuna saman og mótaði úr henni eina heildstæða stefnu. Að lokum tók Tónlistarskóli Skagafjarðar við stefnunni og gerði tillögur að viðbótum sem síðan var unnið úr.

Markmið lestrarstefnunnar eru að efla læsi í tónlistar-, leik- og grunnskólum í Skagafirði, að skapa samfellu í læsisnámi barna og byggja ofan á þann grunn sem fyrir er í hverjum skóla og að efla samstarf við heimilin á sviði lestrar.

Lestrastefnan skiptist í átta kafla sem heita: Lestur og skilningur, Lestrarhvetjandi umhverfi, Samstarf við heimilin, Samfella á milli skólastiga, Tvítyngi og fjöltyngi, Einstaklingsmiðun, Matstæki og loks er kafli sem ber heitið Hugtakaskýringar þar sem útskýrð eru hugtök og aðferðir sem fjallað er um í lestrarstefnunni.

Sigurlaug Rún segir að með lestrarstefnunni sé lögð áhersla á mikilvægi þess að byggja góðan grunn fyrir síðara lestrarnám auk þess að skerpa á mikilvægi lestrar og lestrarþjálfunar á öllum aldursstigum. Í öllu skólastarfi sé mikilvægt að skerpa á markmiðum þess sem unnið er með hverju sinni, sama hvort heldur er fyrir nemendur, kennara eða foreldra. Lestrarstefnan geri það auk þess að vera gott uppflettirit varðandi fjölbreyttar leiðir í málörvun, lestrarkennslu og þjálfun. Í lestrarstefnunni er einnig gott yfirlit yfir þau matstæki sem notuð eru í leik- og grunnskólum í þeim tilgangi að skima fyrir færni barna á sviði málþroska og lestrar. „Síðustu misserin hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu um hnignandi lestrarfærni barna og unglinga. Það er mikilvægt að bregðast við og má segja að með lestrarstefnunni leggi sveitarfélagið sitt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum. Lestrarstefnan er fyrir okkur öll, sama hvort við erum nemendur, foreldrar, afar, ömmur eða starfsmenn í skólum. Það geta allir nýtt sér einhver markmið og einhverjar leiðir í stefnunni til að stuðla að aukinni lestrarfærni barna og unglinga,“ segir Sigurlaug.

Lestrarstefnan verður kynnt foreldrum og forráðamönnum nú í upphafi skólaárs auk þess sem henni verður dreift á heimili allra barna á leik- og grunnskólaaldri. Stefnan er einnig aðgengileg á heimasíðum skólanna og Sveitarfélagsins Skagafjarðar. Rafræna útgáfan verður uppfærð reglulega þar sem stefnan er lifandi verkfæri sem þarfnast stöðugrar endurskoðunar og uppfærslu.

Í stefnunni er lögð áhersla á að í rauninni séu allir kennarar lestrarkennarar og beri að huga að því hlutverki sínu. Sigurlaug Rún, sem ritar inngang að stefnunni, segir: „Góð hljóðkerfisvitund, orðaforði og hugtakaskilningur eru mikilvægir þættir í lestrarþróun barna og því ber að leggja áherslu á að allir kennarar leggi sitt af mörkum til að styrkja þann grunn.“ Í sama streng tekur Herdís Sæmundardóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs hjá Sveitarfélaginu Skagafirði, þar sem hún segir: „Í raun má segja að við séum öll lestrarkennarar, hvaða hlutverki sem við gegnum, kennarar, foreldrar, ömmur og afar, frænkur og frændur – við öll sem samfélag berum ábyrgð á að börnin okkar öðlist góða lestrarfærni og séu vel í stakk búin að takast á við áskoranir daglegs lífs því góð færni í lestri er ein af grunnforsendum árangurs í námi og starfi.“

Fleiri fréttir