Liðum Tindastóls spáð öðru og fimmta sæti

Í morgun fór fram fjölmiðla- og kynningarfundur KKÍ fyrir komandi keppni í Dominos-deildunum í körfunni. Við það tækifæri voru birtar spár formanna, þjálfara og fyrirliða liðanna í Dominos og 1. deild karla og kvenna fyrir tímabilið 2018–2019. 

Karlaliði Tindastóls er spáð öðru sæti, fékk 382 stig í kosningunni, en lið Stjörnunnar fékk 394 stig og er spáð titlinum. Njarðvíkingum er spáð þriðja sæti en Íslandsmeisturum KR því fjórða. Fyrsta umferðin í Dominos-deild karla fer af stað nú á fimmtudaginn og fá Stólarnir lið Þórs Þorlákshafnar í heimsókn en þeim er spáð tíunda sæti. Rétt er að ítreka að hér er einungis um spá að ræða og óþarfi að gleðjast yfir, eða svekkja sig á, öðru sætinu áður en keppni er hafin.

Tindastóll hefur á ný sett meistaraflokk kvenna á laggirnar eftir nokkurra ára pásu og er stelpunum spáð fimmta sæti í 1. deild kvenna, en sjö lið taka þátt í deildinni. Liði Fjölnis er spáð toppsæti deildarinnar. Stólastúlkurnar byrja keppni fjallbratt en fyrsti leikur Tindastóls er einmitt gegn Fjölni fyrir sunnan nk. Laugardag í Dalhúsi og hefst kl. 14:30. Fyrsti heimaleikur liðsins er síðan gegn Grindavík laugardaginn 13. október og hefst kl. 16:30.

Spáin fyrir Domino's deild karla 

1. Stjarnan · 394
2. Tindastóll · 382
3. Njarðvík · 326
4. KR · 323
5. Keflavík · 315
6. Grindavík · 263
7. ÍR · 209
8. Haukar  · 142
9. Valur · 138
10. Þór Þ.  · 133
11. Skallagrímur · 129
12. Breiðablik · 54

Spáin fyrir 1. deild kvenna

1. Fjölnir · 134
2. Grindavík · 117
3. Þór Akureyri · 81
4. Njarðvík · 74
5. Tindastóll · 72
6. ÍR · 55
7. Hamar · 53

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir