Líf og fjör á reiðnámskeiði á Skagaströnd

Aldeilis föngulegur hópur á reiðnámskeiði á Skagaströnd í síðustu viku. Mynd af BF Reiðskóla Eðalhesta.
Aldeilis föngulegur hópur á reiðnámskeiði á Skagaströnd í síðustu viku. Mynd af BF Reiðskóla Eðalhesta.

Það hefur verið líf og fjör á reiðnámskeiði Hestamannafélagsins Snarfara á Skagaströnd og Reiðskóla Eðalhesta í sumar en seinna námskeið sumarsins hófst í gær og stendur fram að helgi. Námskeiðin eru ætluð börnum í 1. til 7. bekkjar í ár.

„Eðalhestar hafa verið að koma til okkar núna í nokkur ár og hafa námskeiðin verið fullbókuð og stundum biðlisti eftir plássi. Reiðskólin Eðalhestar eru með reiðskóla á sumrin á Sprett svæðinu í Kópavogi. Við erum svo heppin að eigendurnir, hjónin Magnús Líndal og Halla María, eru með hestana sína í haga hér rétt hjá Skagaströnd á veturna. Þannig að þau eru svo yndisleg að vera með námskeið hér áður en hestarnir fara í hvíld yfir veturinn,“ segir Dagný H. Þorgeirsdóttir formaður Snarfara.

Hún segir ellefu pláss á hvoru námskeiði og bæði urðu þau fullbókuð í sumar og aðspurð segir hún þau hafa gengið vel. „Það gekk ljómandi vel og eru margir krakkarnir að koma ár eftir ár þannig að þau eru orðin vel hestfær. Krökkunum er kennt að þekkja hvað allur búnaðurinn heitir sem þarf fyrir útreiðar og almenna umhirðu á hestunum. Þeim er síðan kennt að halda rétt í tauminn og hafa stjórn á hestinum sínum. Farið er svo í reiðtúra alla dagana. Í einum  reiðtúrnum er kíkt við í eitt hesthúsið þar sem öll dýrin eru skoðuð, kanínur, hænur, unga og endur. Hápunkturinn er svo síðasta daginn, þegar búið er að fara í reiðtúr og ganga frá hestunum, að grillaðar eru pylsur, sykurpúðar og poppað á kolagrillinu.“

Hægt er að sjá myndir af námskeiðunum á Facbooksíðu Snarfara og Eðalhesta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir