Lífið er list - Áskorandapistill Ingibjörg Jónsdóttir Syðsta-Ósi

Sem barn skoðaði ég oft myndaalbúm foreldra mína sem innihéldu m.a. myndir af föður mínum að taka þátt í leiklistarstarfsemi hjá ungmennafélaginu Gretti á Laugarbakka.  Sú starfsemi var ekki í gangi á þeim tíma og það var ekki fyrr en áratug seinna sem að hún var endurvakin eftir 22 ára hlé. 

Ég bjó þá í Reykjavík og fékk þá hugdettu að endurvekja leikfélagið og ræddi við meðstjórnendur mína í ungmennafélaginu.  Það var tekið vel í þessa hugmynd og ákveðið að setja upp gamanleikritið Frænka Charlie‘s en hafði það áður verið sett upp af félaginu árið 1969.  Síðan eru liðin 14 ár, fimm sýningar að baki og félagið að fara í tvær uppsetningar á þessu leikári en nú í samfloti með Leikflokknum á Hvammstanga en ákváðu félögin að sameinast í haust undir nafninu Leikflokkur Húnaþings vestra. 

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað það er sem drífur mann áfram í sjálfboðavinnu eins og þessari. Ég held að það sem fékk mig til að byrja var saga félagsins, skoðandi myndir úr starfsemi félagsins síðustu áratugi, hugsandi að þetta hljótum við að geta gert í dag eins og fyrir 80 árum síðan. Félagsskapurinn, að skemmta sveitungum og öðrum og síðast en ekki síst sjálfum sér. Fjárhagslega séð er markmiðið að sýningin borgi sig sjálf, en auðvitað er það mikill kostur að sýningin komi út með smá auka aur svo að hægt sé að gera gott fyrir þátttakendur eftir framlag sitt síðustu vikur og mánuði, tala nú ekki um kaup á búnaði og öðru fyrir starfsemina. 

Eftir samstarf ofangreindra félaga árið 2016 með uppsetningu á rokkóperunni Súperstar varð manni ljóst að þetta gat orðið að reglulegum viðburði, þótt stór væri í sniðum, og í stað þess að fara aftur í samstarf að þá væri alveg eins gott að sameina félögin og efla starfsemina í leiðinni. Við erum líka svo heppin að þurfa ekki að leita útfyrir svæðið að fólki, alveg sama um hvaða hlutverk innan leiklistarinnar er að ræða. Leikstjórar, tónlistarfólk, áhugaleikarar, hljóð- og ljósamenn, förðun og hár, smiðir og klæðskerar, allt er þetta til staðar hér í Húnaþingi vestra. Ekki má svo gleyma fjölskyldu þátttakenda, en oft er þetta fjölskyldufólk sem er að heiman í ágætis tíma á meðan á æfingum og sýningum stendur.

En það er meira en þátttakendur sem þarf til að halda uppi leiklistarstarfsemi, til að mynda gott húsnæði og ýmis tæknilegur búnaður. Eftir sameininguna varð til fjármagn til að endurnýja ljósabúnað Félagsheimilisins á Hvammstanga og var sá búnaður vígður aðra helgina í desember þegar fjölskylduleikritið Snædrottningin eftir H.C. Andersen var sýnt.  Gaman að segja frá því að meira en helmingur þátttakenda voru krakkar úr Grunnskóla Húnaþings vestra. Næstu skref leikflokksins er uppsetning á söngleiknum Hárið næstu páska og er undirbúningur þegar hafinn.

Ég skora á Þórey Eddu Elísdóttur sem næsta penna.

Áður birst í 48. tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir