Líkamlegt álag kynbótahrossa við reiðdóm
Nýlega birtu starfsmenn við hestafræðideild Hólaskóla – Háskólans á Hólum vísindagrein þar sem lýst er líkamlegu álagi við reiðdóm kynbótahrossa. Þetta er í fyrsta skipti sem líkamlegu álagi íslenskra hrossa í kynbótasýningu er lýst í alþjóðlegu tímariti. Greinin birtist í evrópska vísindaritinu Animal og er aðgangur að greininni opinn öllum hér og unnt að sækja hana á pdf-sniði.
Niðurstöðurnar sýndu að stóðhestar eru þolnari og þola álagið betur en hryssurnar. Einnig kom í ljós að aldur hrossanna hefur takmörkuð áhrif á líkamlegu svörunina. Lagt er til að þessar niðurstöður megi hafa til hliðsjónar þegar þróaðar eru leiðir til að þjálfa kynbótahross og einnig til að þróa matsleiðir á þjálfunarástandi íslenskra hrossa, sem gætu bætt líkamlega getu og velferð hrossanna.
Frá þessu segir á vef Hólaskóla.
