Lína Langsokkur skottast um í Bifröst

Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir leikritið um hina sterku og snjöllu Línu Langsokk, sem allir ættu að kannast við, föstudaginn 18. október í Bifröst á Sauðárkróki. Ekki þarf að fjölyrða um uppátæki Línu, sem öll eru stórkostleg og enginn ætti að leika eftir, enda erfitt þegar um sterkustu manneskju í heimi er um að ræða. Með hlutverk Línu fer Emelíana Lillý Guðbrandsdóttir en vini hennar, Önnu og Tomma, leika þau Kristín Björg Emanúelsdóttir og Ásbjörn Wage. Langsokk sjálfan, sjóræningjann í Suðurhöfum og pabba Línu, leikur Guðbrandur J. Guðbrandsson. Leikstjóri er Pétur Guðjónsson.

„Æfingar hófust 30. ágúst og hefur æfingatímabilið gengið vel, erum með flottan hóp innan sviðs sem utan sem hefur skilað flottri vinnu undanfarnar vikurnar í góðri leikstjórn Péturs Guðjónssonar.  Alls eru um 35 manns í leikhópnum þar af 16 leikendur.  Leikfélag Sauðárkróks setur upp tvær sýningar á ári og hefur í mörg ár sett upp barna og fjölskylduleikrit á haustin en farsa, gaman- eða söngleiki á vorin,“ segir Sigurlaug Dóra Ingimundardóttir, formaður félagsins. „Ástæða þess er einfaldlega sú að við viljum hafa eins mikla fjölbreytni og hægt er fyrir alla áhorfendahópa, þó svo að það sé ekkert aldurstakmark á neina sýningu. Einnig viljum við bjóða öllu því frábæra fólki sem starfar með okkur upp á sem skemmtilega og lærdómsríka vinnu innan leiklistarinnar.“

Sigurlaug segir að síðasta haust hafi Ævintýrabókin verið sett upp en þetta haustið hafi verið komið að Línu einfaldlega vegna þess að leikritið er skemmtilegt og einnig vegna þess að það sé langt síðan hún var sett upp síðast hjá LS en undanfarin haust hefur LS verið duglegt við að setja upp þessi klassísku barnaleikrit eins og Dýrin í Hálsaskógi, Emil í Kattholti og Kardimommubæinn.

„Gaman er að segja frá því að oft er talað um leikhópinn sem leikfjölskyldu þá er dásamlega mikið um svona alvöru skyldleika í leikhópnum, mæðgur, systur, mæðgin, feðgin og frændsystkini. T.d. eru Lína og Langsokkur í alvöru feðgin. Þá er einnig gaman að segja frá því að sama dag og við frumsýnum verður Lína frumsýnd í Vestmannaeyjum og hjá Leikfélagi Fljótdalshéraðs í nóvember, þannig að landsmenn ættu svo sannarlega að geta farið í leikhús og skemmt sér með Línu og vinum hennar,“ segir Sigurlaug Dóra.

 

Sýningaplan

Frumsýning föstudag 18. okt kl 18:00
2. sýning laugardag 19.okt kl 14:00
3. sýning sunnudag 20. okt kl 14:00
4. sýning þriðjudag 22. okt kl 18:00

5. sýning miðvikudag 23. okt kl 18:00
6. sýning föstudag 25. okt kl 18:00
7. sýning laugardag 26. okt kl 14:00
8. sýning sunnudag 27. okt kl 14:00

9. sýning þriðjudag 29. okt kl 18:00
10. sýning miðvikudag 30. okt kl 18:00
11. sýning föstudag 1. nóvember kl 18:00
12. sýning laugardag 2. nóvember kl 14:00
13. LOKASÝNING sunnudag 3. nóvember kl 14:00

Almennt miðaverð 3500 kr

Hópar, eldri borgarar, öryrkjar og grunn og leik skóla börn 3000 kr.
Miðapantanir eru í síma 8499434

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir