Línuleið Holtavörðuheiðarlínu 3
Íbúakynning verður haldin á Krúttinu á Blönduósi þriðjudaginn 13.janúar nk. þar sem farið verður yfir forsendur og ferli vegna línuleiðar Holtavörðuheiðarlínu 3 og hefst fundurinn klukkan 19:30 þar sem heitt verður á könnunni og léttar veitingar.
Í Samantekt á umhverfismatsskýrslu Holtavörðuheiðarlínu 3 kemur fram að Landsnet undirbúi nú byggingu á Holtavörðuheiðarlínu 3, sem er 220 kV raflína og mun tengja nýtt tengivirki á Holtavörðuheiði við Blöndustöð. Línan liggur um Húnaþing vestra og Húnabyggð og er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu meginflutningskerfisins, sem tengir saman Vesturland, Norðurland og Austurland.
Markmið Holtavörðuheiðarlínu 3 er að bæta afhendingaröryggi á landinu öllu og bæta tiltæka afhendingargetu á öllum afhendingarstöðum á landinu með því að auka flutningsgetu lína á byggðalínusvæðinu. Þannig má koma í veg fyrir að flutnings-takmarkanir hamli eðlilegri atvinnuuppbyggingu, launaþróun og orkuskiptum í landinu.
Þegar ný tenging er komin verður til öflugt svæðisbundið kerfi á Norðvesturlandi sem verður til mikilla bóta fyrir sveitarfélögin og línan kemur til með að fara um. Svæðisbundna kerfið mun styðja við atvinnustarfsemi, nýsköpun og afhendingaröryggi á svæðinu.
Áður en sótt er um framkvæmdaleyfi fyrir línunni eru umhverfisáhrif hennar metin í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Í þessari samantekt umhverfismatsskýrslunnar er farið yfir forsögu verkefnisins, framkvæmdinni og markmiðum hennar lýst, ásamt valkostum. Þá er farið yfir samanburð valkosta og niðurstöður umhverfismats fyrir aðalvalkosti, helstu mótvægisaðgerðir, og að lokum skipulagsmál í tengslum við framkvæmdina.
Samantektin er hluti af umhverfismatsskýrslu Holtavörðuheiðarlínu 3, sem hlýtur opinbera kynningu, þar sem allir geta gert athugasemdir við niðurstöður umhverfismatsskýrslu.
