Lista- og vísindasmiðjur á Norðurstrandarleið - Íbúar Norðurlands vestra hvattir til að taka þátt í verkefninu

Lee Ann Maginnis, verkefnisstjóri. Aðsend mynd.
Lee Ann Maginnis, verkefnisstjóri. Aðsend mynd.

Stefna á þátttakendum í fimm fjörur á Norðurlandi vestra, þann 25. maí næstkomandi. Byrjað verður á því kl. 10 að safna saman rusli og í framhaldinu verða reistar vörður undir leiðsögn listamanna frá Listaháskóla Íslands, Nes listamiðstöð á Skagaströnd og Textíllistamiðstöðinni á Blönduósi. Reiknað er með því að dagskránni verði lokið í síðasta lagi kl. 16. Tvær fjörur eru staðsettar við Sauðárkrók, ein við Hvammstanga og tvær úti á Skaga.

Markmiðið með verkefninu er að auka þekkingu almennings á umhverfismálum og mengun hafsins. Þema smiðjanna er „Varða“ en talið er að maðurinn hafi reist sér vörður allt frá steinöld. Textílmiðstöð Íslands á Blönduósi stýrir verkefninu í samstarfi við Biopol á Skagaströnd en tveir  vísindamenn hjá Biopol eru búnir að þræða norðurströndina til að skoða fjörur þar sem rusl berst að landi.

Styrkur fékkst til verkefnisins bæði frá Uppbyggingarsjóði og Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og að sögn Lee Ann Maginnis, verkefnisstjóra, hefur undirbúningur verkefnisins gengið vel. ,,Sú hugmynd kom upp að fá ungmennasamböndin á svæðinu með í verkefnið en þau búa yfir miklum mannauð sem hægt er að nýta í verkefnið. Sveitarfélögin hafa líka öll tekið mjög vel í þetta og núna er verkefnið á lokametrunum en verið er að afla leyfi landeigenda til að fara í fjörurnar.“

Í verkefninu felst að vísindin og listirnar leggja saman til að skapa vettvang til að vekja athygli á þeirri ógn sem mengun hafsins er lífi á jörðinni. Þátttakendur á hverjum stað ákveða undir leiðsögn þess listafólks sem leiðir þá vinnu hvernig þeir skilgreina sína vörðu og með hvaða hætti hún varpar ljósi á eða leggur til lausn/lausnir á mengun hafsins.

,,Nákvæm staðsetning á fjörunum verður aðgengileg á heimasíðu Textílmiðstöðvarinnar, www.textilmidstod.is og frekari upplýsingar. Ég vil hvetja íbúa á Norðurlandi vestra til að taka þátt í verkefninu með okkur og mæta í fjörurnar. Við mælum líka með því að þátttakendur komi með sína eigin kaffibolla til að minnka ruslið sem kemur frá okkur mannfólkinu“  segir Lee Ann að lokum.

Boðið verður upp á kaffi og kakó á staðnum. Verkefnið verður í framhaldinu kynnt sem hluti af opnun Norðurstrandarleiðarinnar þann 8. júní næstkomandi á „Degi hafsins“.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir