Litaregn á öskudegi

Það getur verið vandi að velja bestu molana. MYNDIR: ÓAB
Það getur verið vandi að velja bestu molana. MYNDIR: ÓAB

Það voru kannski óvenju fáar heimsóknir í Nýprent og Feyki þennan öskudaginn enda sjálfsagt óvenju margir að basla með Covid og aðra kvilla þessa fyrstu daga eftir tilslakanir. Það voru þó nokkrir kátir krakkahópar sem litu við, flestir í skrautlegri kantinum, og þáðu pínu nammi fyrir söng.

Inn poppaði brúðarmær, pizzasneið, ruslapokar, jólasveinar, bófar og beinagrindur, fáeinir hundar, prinsessur, Harry Potter og nokkrar kökusneiðar með logandi kertum svo eitthvað sé nefnt.

Blaðamaður Feykis hafði gert sér vonir um að nýja uppáhaldslagið hans fengi að hljóma, Ég er að labba, labba, labba..., en krakkarnir eru greinilega ekki eins föst í línulegri dagskrá og blaðamaðurinn og könnuðust fæst við lagið. Einn hópur hafði íhugað að syngja þetta lag en hætti við og vildi ekki spreyta sig þrátt fyrir óskir þar um. Fátt óvænt bar því til eyrna þennan morgun en þó var sólóflutningur á We Will Rock You glæsilegur.

Aldrei þessu vant þá bauluðu beljurnar frá Bjarnastöðum ekkert í dag sem varð til þess að hinn ódauðlegi Gamli Nói, sem nú virðist helst stunda það að poppa popp, fékk að hljóma villt og galið og allir virðast kunna Gulur, rauður, grænn og blár. Má reyndar segja að það hafi verið offramboð af þessum tveimur lögum og er því mælst til þess að krakkarnir leggi örlítið meiri metnað í lagavalið að ári. Tveir sprækir kappar fluttu nokkuð óvissa útgáfu af Gamla Nóa og aðspurðir sögðust þeir hafa æft lagið síðasta öskudag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir