Litið við hjá ferðaþjónustuaðilum - Krúttlegt veitingahús á sjávarbakkanum

Veitingahúsið Bjarmanes stendur aðeins örfá skref frá fjöruborði Húnaflóans. Myndir:FE
Veitingahúsið Bjarmanes stendur aðeins örfá skref frá fjöruborði Húnaflóans. Myndir:FE

Ferðamenn sem leið eiga um Norðurland láta það gjarnan ógert að líta við á Skagaströnd. Það er þó ekki langur krókur, hvort sem um er að ræða vegalengdina frá þjóðvegi 1 á Blönduósi eða spottann frá afleggjaranum á Þverárfjallsveginum sem er ekki nema u.þ.b. 13 kílómetrar. Skagaströnd er lítill en fallegur bær sem hefur upp á ýmislegt að bjóða fyrir ferðamenn. Þar er meðal annars rekin veitingasala í litlu og afskaplega fallegu gömlu húsi sem ber nafnið Bjarmanes.

Ebbi og Liya á Bjarmanesi.

Bjarmanes var byggt árið 1912 og hefur í gegnum tíðina gegnt margvíslegu hlutverki, m.a. sem samkomuhús, skóli og lögreglustöð. Húsið stendur rétt við fjöruborðið og þaðan er einstakt útsýni til allra átta. Blaðamaður renndi við á Skagaströnd á dögunum og spjallaði við hjónin Liyu Yirga Behaga sem er frá Eþíópíu og Skagstrendinginn Guðjón Ebba Guðjónsson.

Liya og Ebbi tóku við rekstri veitingasölunnar í Bjarmanesi fyrir rúmu ári síðan en þá hafði sveitarfélagið auglýst reksturinn á Bjarmanesi, Félagsheimilinu Fellsborg og tjaldsvæðinu á Skagaströnd til leigu í einum pakka. Áður var Bjarmanes rekið sem kaffihús en nú er þar boðið upp á venjulegan heimilismat, súpu og rétt dagsins, alla virka daga og auk þess er hægt að gæða sér á kaffi og kökum. Í Bjarmanesi er opið frá klukkan 11:30-18:00 alla virka daga og um helgar milli klukkan 14 og 18. Á laugardagskvöldum er svo opið frá klukkan 11-01 og lengur ef stemningin býður upp á það.

Félagsheimili Skagstrendinga, Fellsborg sem Liya og Ebbi annast rekstur á.

Fjölbreyttur matseðill í Fellsborg

Fellsborg er félagsheimili Skagstrendinga. Þar hafa þau hjón rekið matsölustað í sumar þar sem boðið er upp á ýmsa rétti á matseðli, s.s. pítsur, hamborgara, samlokur, steikur og fiskrétti. Þau segjast ekki bjóða upp á marga rétti í hverjum flokki en reyni að vera með eitthvað sem hentar öllum. Matseldin er í höndum Liyu en Ebbi segist vera ágætis uppvaskari. Í Fellsborg er opið frá klukkan 18-22 alla daga yfir sumarið. Á veturna reka þau mötuneyti fyrir grunnskólann í Fellsborg, auk þess að elda fyrir leikskólann, en opið er fyrir almenning í Bjarmanesi og er veitingastaðurinn vel sóttur af bæjarbúum. Ebbi segir að í vetur hafi verið algengt að um 20-25% af íbúum staðarins borðaði hjá þeim hádegismat.

Auk þessara tveggja staða reka þau Liya og Ebbi tjaldsvæðið sem er staðsett efst í þorpinu. Þar er öll aðstaða til fyrirmyndar í þjónustuhúsi með salernisaðstöðu, sturtum og þvottaaðstöðu. Tjaldsvæðið er opið frá 15. maí -15. september.

Þau hjón segjast vera ánægð með hvernig til hefur tekist með reksturinn hjá þeim og hafa bæjarbúar tekið öllu því sem þau hafa bryddað upp á mjög vel.

Bjarmanes.

Þau hafa tekið að sér ýmsar veislur, s.s. erfidrykkjur, fermingarveislur og afmæli og í vetur buðu þau upp á ýmsar nýjungar auk fastra liða í starfsemi félagsheimilisins. Má þar nefna súshi-kvöld, konukvöld, spila- og handavinnukvöld í Bjarmanesi og að sjálfsögðu eþíópískt kvöld en eins og fyrr segir er Liya frá Eþíópíu. Það hljómar óneitanlega sem spennandi kostur fyrir litla hópa að taka sig til og fara á eþíópískt kvöld til Skagastrandar en að sögn Liyu og Ebba er maturinn í Eþíópíu á allan hátt frábrugðinn því sem Íslendingar eiga að venjast, t.d. er hann borinn fram á súrdeigspönnukökum og snæddur án þess að notuð séu hnífapör.

Ebbi og Liya segjast vera bjartsýn á framhaldið og ætla að halda ótrauð áfram að byggja starfsemina upp en hvernig hlutirnir þróist verði að taka mið af því hver eftirspurnin verði.

 

Áður birt í 28. tbl Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir