Litið við hjá ferðaþjónustuaðilum - Mjólkurhús í nýju hlutverki

Vertinn í Mjólkurhúsinu á Stróru-Ásgeirsá. Mundir:FE
Vertinn í Mjólkurhúsinu á Stróru-Ásgeirsá. Mundir:FE

Sjálfsagt eru þeir margir Íslendingarnir sem aldrei hafa gefið sér tíma til að staldra við í Húnaþingi, heldur gefa í og bruna eftir hinum tiltölulega beinu og breiðu vegum sýslunnar. Það er þó full ástæða til að gefa sér örlítið tóm og bregða út af vananum því svæðið býður upp á fjölmörg falleg náttúrufyrirbrigði og víða er hægt að leggja lykkju á leið sína án þess að það þurfi að taka svo afskaplega mikið af hinum dýrmæta tíma sem margir eru alltaf í kapphlaupi við. Einn af þeim möguleikum sem eru fyrir hendi er að aka til tilbreytingar veg nr. 715 um Víðidalinn að austan og virða dalinn fyrir sér frá annarri hlið en venjan er og jafnvel að skreppa fram í hin stórfenglegu Kolugljúfur sé ekki verið að flýta sér of mikið.

Potturinn við Ásgeirsárfossa.

Einn af þeim bæjum sem ekið er framhjá á þeirri leið er Stóra-Ásgeirsá þar sem Magnús Ásgeir Elíasson býr með hross og sauðfé ásamt fleiri dýrum. Þar hefur um nokkurra ára skeið verið rekin hestaleiga og einnig heimagisting í fjórum björtum og vistlegum herbergjum sem allt í allt rúma níu manns í gistingu. Rétt utan við útidyrnar er heitur pottur á bakka lítillar ár, Ásgeirsár, þar sem hún rennur hjá í fallegum fossum sem nefnast Ásgeirsárfossar. Einnig er á bænum lítill húsdýragarður þar sem að sjálfsögðu er hægt að fá að sjá hesta en einnig endur, hænur, heimaalninga, hunda og ketti og jafnvel kettlinga. Ekki má svo gleyma geitunum og kiðlingunum sem eru sérlega vinalegar og gaman að fá að klappa.

Í húsdýragarðinum eru m.a. geitur og kiðlingar.

Bar í fjósinu

Nýjasta viðbótin í ferðaþjónustunni á Stóru-Ásgeirsá er svo bar en hann hefur Magnús sett upp í fjósinu sem ekki er notað sem slíkt lengur, nánar tiltekið í gamla mjólkurhúsinu. Barinn dregur vitanlega nafn þar af og nefnist Mjólkurhúsið. Salurinn tekur 24 manns í sæti og þar er framreiddur morgunverður fyrir næturgesti. Á barnum eru náttúrulega ýmsir drykkir í boði og einnig býður Magnús upp á að hægt sé að panta þar kvöldverð, grillað lambakjöt eða kjötsúpu frá bænum.  Svo er aldrei að vita nema húsbóndinn taki lagið en hann er liðtækur tónlistarmaður og hefur gefið út disk með lögum sínum og nefnist hann Legg af stað.

Eitt af fjórum herbergjum sem leigð eru út.

Mjólkurhúsið er opið öll kvöld vikunnar, bæði fyrir næturgesti og einnig geta heimamenn og aðrir þeir sem leið eiga um rennt við og kíkt á barinn.

 

 

Áður birt í 29. tbl. Feykis 2018

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir