Litli Hnotubrjóturinn í Miðgarði

Sýningin Litli Hnotubrjóturinn verður sýnd í Menningarhúsinu Miðgarði, Varmahlíð, 15. desember næstkomandi. Tónadans heldur sýninguna í samvinnu við Tónlistarskóla Skagafjarðar og á sýningunni munu einmitt koma fram dansnemendur frá Tónadansi og fiðlunemendur frá Tónlistarskólanum og Tónadansi. Einnig koma fram þau Íris Olga Lúðvíksdóttir og Sveinn Sigurbjörnsson.

Listrænir stjórnendur sýningarinnar eru Joaquin De La Cuesta Gonzales, Cristina Sabate Perez og Kristín Halla Bergsdóttir. Þau koma einnig fram í sýningunni.

Hnotubrjóturinn er sígilt dansverk sem sett er upp víða um heim á hverjum jólum. Tónlistin er eftir Pjotr Tjækovskí (1840-1893) en Hnotubrjóturinn var með hans síðustu verkum. Sagan hefur verið sögð á ýmsa vegu, bæði á klassískan og nútímalegan hátt.

Sagan um Hnotubrjótinn gerist á aðfangadagskvöld hjá Stahlbaum-fjölskyldunni og fjallar sagan um stúlkuna Clöru og Hnotubrjótinn sem hún fær í jólagjöf. Í þeirri uppfærslu sem nú er sett upp eru nokkrir kaflar fluttir úr balletnum sem henta flytjendum að þessu sinni.

Tvær sýningar eru í boði kl. 17:30 og 18:30 og tekur hvor sýning rúmlega hálftíma í flutningi. Miðaverð er 1000 kr. en frítt er fyrir grunnskólabörn. Panta þarf miða fyrirfram á netfanginu tonadans@tonadans.is eða í síma 868-6851.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir