Ljúffengar tortillur og frönsk eplakaka

Jóhann og Bergþóra.
Jóhann og Bergþóra.

Í 13 tölublaði Feykis árið 2015 voru þau Jóhann Sigurjón Jakobsson og Bergþóra Sveinbjörnsdóttir á Blönduósi matgæðingar vikunnar.

„Við erum ekki beint stórtæk í eldhúsinu en við grípum stundum í uppskriftir sem eru annaðhvort á netinu eða í bókinni „Læknirinn í eldhúsinu“ sem við fengum að sérstakri gjöf frá Sigurði Ólafssyni, húnvetnskum óðalsbónda í Kjós, hér eru tvær sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá okkur,“ segja þau.

 Aðalréttur
Ljúffengar tortillur 

250 g rjómaostur
½ bolli mild salsasósa
½ lime, kreist yfir
1 tsk cumin
1 tsk oregano
2 tsk chiliduft
1 tsk laukduft
salt og pipar
2 lítil hvítlauksrif
dass af kóríander, rifnum
½ rauðlaukur, saxaður
2 bollar ostur, rifinn
1 pakki tortillur
3 kjúklingabringur, fulleldaðar og smátt skornar 

Aðferð:
Blandið saman rjómaosti, kryddum, lauk, hvítlauk, limesafanum, salsasósu, ostinum, kóríander og kjúklingnum. Hitið tortillurnar á pönnu, setjið fyllinguna í tortillurnar og rúllið upp, gott er að pensla þær með matarolíu. Bakið við 200°C í 10-15 mínútur, eða þangað til þær verða stökkar og góðar.

 Eftirréttur
Frönsk eplakaka                                                                             

1 ½ bolli hveiti
1 bolli sykur
½ tsk salt
½ tsk kanill
1 tsk vanilludropar
2 tsk lyftiduft
1 bolli mjólk
1 bolli brætt smjör
4 egg
6 græn epli 

Aðferð:
Öll þurrefni sett í skál: Hveiti, sykri, salti, kanil og lyftidufti hrært saman. Vanilludropum, mjólk, smjöri og eggjum bætt við og hrært meira. Eplin flysjuð og skorin í skífur.
Smyrjið eldfast mót með smjöri, setjið eplaskífurnar í botninn og hellið helmingnum af deiginu yfir. Setjið svo restina af eplaskífunum yfir deigið (en geymið nokkrar til þess að setja ofan á í restina).
Hellið afganginum af deiginu yfir og raðið restinni af eplaskífunum snyrtilega ofan á. Bakist í ofni við 180°C í 35-40 mínútur.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir