Lýðheilsuganga að Þrístöpum og um Vatnsdalshóla
Ferðafélag Íslands stóð fyrir lýðheilsugöngum á miðvikudögum í september sem mæltust vel fyrir. Tilgangur gönguferðanna var sá að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði. Farið var í skipulagðar gönguferðir í báðum Húnavatnssýslunum og á fréttavefnum Húni.is kemur fram að ágæt þátttaka hefur verið í göngunum í Austur-Húnavatnssýslu og þakkar ferðamálastjóri göngustjórum kærlega fyrir samvinnuna og öllum þátttakendum fyrir áhugann á verkefninu.
Nú hefur verið ákveðið að bæta við einni lýðheilsugöngu til viðbótar í næstu viku. Að þessu sinni verður gengið á þriðjudegi í stað miðvikudags eins og áður hefur verið. Nú verður gengið suður í Vatnsdalshóla undir leiðsögn Magnúsar Ólafssonar frá Sveinsstöðum.
Á Húna.is er að finna eftirfarandi lýsingu á göngunni sem verður þriðjudaginn 2. október:
Hin formlega lýðheilsuganga hefst klukkan 18:15 við Þrístapa og verður gengið suður í Vatnsdalshólana undir leiðsögn Magnúsar Ólafssonar frá Sveinsstöðum.
Hann mun hins vegar vera mættur á Þrístöpum klukkan 17.45. Þar segir hann stuttu útgáfuna af sögunni um morðin, aftökuna 1830 og uppgröft beinanna 1934 eftir beiðni frá Agnesi. Öllum er heimilt að koma á Þrístapa, láta þá stuttu göngu duga, mæta aðeins í gönguna suður í Hólana eða taka þátt í hvorutveggja.
Fólk getur ráðið hvort það lætur duga að ganga c.a. 15 mín suður í hólana og hlusta þar á Magnús segja frá náttúruumbrotum á þessu svæði. Ekki eingöngu hvernig hólarnir mynduðust, heldur mun hann einnig koma inn á önnur mikil náttúruumbrot sem hafa orðið úr vesturhlíðum Vatnsdalsfjalls frá því land byggðist og hafa haft mikil áhrif náttúruna á þessu svæði. Eftir það er hægt að ganga til baka að bílunum, eða ganga víðar um hólana og skoða þetta merkilega fyrirbrigði.
Þátttakendur eru hvattir til þess að sameinast í bíla og nýta vel takmörkuð bílastæði við Þrístapa.
Lýðheilsuganga 5 – Þrístapar og Vatnsdalshólar
Staðsetning: Þrístapar
Tímasetningar:
KL 17:45 Magnús tekur á móti gestum og segir stutta útgáfuna af sögunni um morðin, aftökuna og uppgröftinn.
KL 18:15 haldið af stað suður í Vatnsdalshólana
Göngustjóri: Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum