Mætingin er áhyggjuefni
Teknar hafa verið saman mætingatölur fyrir Sauðárkrók og nærsveitir vegna krabbameinsleitar í maí sl. Alþjóðlegar viðmiðanir miða við að þáttataka sé helst yfir 80% en í Skagafirði var mæting i brjóstakrabbameinsleit 57% og leghálskrabbameinsleit 34%.
Að sögn Kristján Oddssonar, sviðstjóra leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands er þetta sannarlega áhyggjuefni. „Í aldurshópnum 23-39 ára mættu 29 af 145 sem fengu boðsbréf eða 20% og í aldurshópnum 40-65 ára mættu 109 af 258 sem fengu boðsbréf eða 42%. Mæting á ykkar svæði er reyndar svipuð eins og á öðrum stöðum sem við höfum farið á landsbyggðinni á þessu ári. Við höfum verulegar áhyggjur af þessu“ sagði Kristján í samtali við Feyki.
Kristján vildi geta þess að nú geta allar konur pantað sér tíma á heilsugæslunni í leghálskrabbameinsleit allt árið um kring því Anna María Oddsdóttir ljómóðir tekur þau sýni, eða læknarnir, ef konur kjósa það frekar. „Anna María hefur verið hjá okkur í þjálfun og í framtíðinni munu ljósmæður á heilsugæslustöðvum á landsbyggðinni sjá um þessa heisluvernd. Flest sýni tekin hér í Leitarstöðinni eru líka tekin af ljósmæðrum,“ sagði Kristján. /KSE