Málþing á Skagaströnd um Jón Sigurðsson
Á næsta ári eru liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, forseta Kaupmannahafnardeildar Hins íslenska bókmenntafélags. Í tilefni af þessum tímamótum skipaði Alþingi nefnd sem hefur undirbúið afmælisdagskrá með hátíðum, ráðstefnum, sýningum, frímerkjaútgáfu, minjagripahönnun og ritgerðasamkeppni grunnskólabarna, svo fátt eitt sé nefnt.
Fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra tekur forskot á sæluna og stendur fyrir málþinginu sem beinir sjónum að því með hvaða hætti minningin um Jón forseta sem leiðtoga Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni varð til og mótaðist í íslensku samfélagi á fyrstu áratugunum eftir andlát hans. Málþingið ætti að vera sérstaklega áhugavert fyrir þá sem hafa áhuga á menningartengdri ferðaþjónustu og ímyndarmálum.
Á málþinginu veltir Sigurður Gylfi Magnússon sagnfræðingur fyrir sér samhengi samfélagsþróunar og þess hvernig þjóðin hefur kosið að muna fortíð sína. Þá talar Páll Björnsson sagnfræðingur, sem sendir frá sér rit um arfleifð Jóns Sigurðssonar á afmælisárinu, um sameiningartáknið Jón Sigurðsson sem menn gera gjarnan að samherja sínum í pólitískum hitamálum. Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur fjallar næst um það hvernig hugmyndin
um hetjuna hefur bæði verið notuð til að réttlæta tilvist Háskóla Íslands og til að gagnrýna starfsemi hans. Síðast, en ekki síst, ræðir Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur um þjóðardýrlinginn og spyr hver framtíð Jóns Sigurðssonar sé í því hlutverki á næstu árum og áratugum. Í lokin verður góður tími til umræðna.
Nánari upplýsingar á Skagaaströnd.is