Málþing um framtíð Hveravalla
Húnavatnshreppur, Hveravallafélagið ehf, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Vaxtarsamningur Norðurlands vestra halda opið málþing um málefni Hveravalla laugardaginn 23. október næstkomandi klukkan 10:30-16:00 í Húnaveri. Leiðarstef málþingsins er þróun heilsársstarfsemi á Hveravöllum í átt til sjálfbærrar framtíðar með umhverfis- og náttúruvernd að leiðarljósi.
Fyrirlesarar úr ýmsum áttum munu kynna gildandi deiliskipulag, svæðisskipulag hálendisins, stöðu Hveravalla í náttúruverndar- og umhverfismálum, niðurstöður rannsókna á viðhorfum ferðamanna á svæðinu, núverandi rekstur á svæðinu og framtíðarsýn Ferðamálastofu fyrir ferðaþjónustu á hálendinu. Þáttakendur munu fá tækifæri til að koma á framfæri hugmyndum og ábendingum sem verða hafðar til hliðsjónar við stefnumótun í málefnum svæðisins í framhaldinu.
Málþingið er öllum opið án endurgjalds, en áhugasamir eru beðnir að skrá sig sem fyrst á www.ssnv.is til að auðvelda undirbúning.
Umferð ferðamanna um Kjöl hefur aukist verulega undanfarin ár, og er nú talið að fjöldi gesta á Hveravöllum sé allt að 30-40 þúsund á sumri. Metnaðarfullt deiliskipulag hefur verið gert fyrir svæðið þar sem gert er ráð fyrir hálendismiðstöð, en sú uppbygging er kostnaðarsöm og vandséð hvernig að henni verður staðið. Á hinn bóginn er ljóst að bæta verður grunnþjónustu á Hveravöllum, til dæmis hreinlætisaðstöðu. Umtalsverðar úrbætur hafa verið gerðar í því efni til bráðabirgða að undanförnu, og borun eftir neysluvatni síðastliðið vor lofar góðu. Jafnframt var borað eftir heitu vatni sem nýta mætti til raforkuframleiðslu, og tókst það vonum framar. Áður en ráðist verður í frekari uppbyggingu þessara innviða þarf að huga að framtíðarsýn fyrir Hveravelli og leita raunhæfra leiða að henni. Málþinginu er ætlað umtalsvert hlutverk í því efni, og vonast skipuleggjendur þess til góðrar þáttöku af hálfu allra sem láta sig varða uppbyggingu ferðaþjónustu á hálendinu.
Nánari upplýsingar um dagskrá og fleira er að finna á vef Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra: www.ssnv.is Umsjón með málþinginu hefur Stefán Haraldsson atvinnuráðgjafi: stefan@ssnv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.