Mannbjörg varð er trilla sökk á Skagafirði

Báturinn sökk undan Reykjardiski á Reykjaströnd. Mynd: Skjáskot af MarineTraffic.com.
Báturinn sökk undan Reykjardiski á Reykjaströnd. Mynd: Skjáskot af MarineTraffic.com.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á níunda tímanum í gærkvöldi neyðarkall frá bát í vanda á Skagafirði. Eftir nánari eftirgrennslan kom í ljós að báturinn hafði farið á hliðina. Samkvæmt því sem kemur fram á heimasíðu Gæslunnar voru tveir menn um borð í bátnum og varð þeim báðum bjargað.

TF-GNÁ, þyrla Landhelgisgæslunnar, var þegar í stað kölluð út sem og björgunarsveitir. Farþegabáturinn Súlan var einnig sendur á staðinn frá Hofsósi ásamt björgunarsveitarmönnum. Þyrlan tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 21:09 en skömmu áður barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar upplýsingar um að mennirnir væru komnir í flotgalla. Þeim var svo bjargað um borð í björgunarbát heilum á húfi um þremur korterum eftir að neyðarkallið barst og var aðstoð þyrlunnar þá afturkölluð, segir á lhg.is.

Vísir.is greinir frá því að sjómennirnir hafi hangið utan á stefni trillunnar þegar björgunarsveitarmenn komu að þeim. Þeim hafði tekist að koma sér í björgunargalla og amaði því ekkert að þeim þrátt fyrir að sjór hafi gengið yfir þá.

Eftir því sem fram kemur á Vísi.is amaði ekkert að mönnunum sem voru alveg þurrir þegar þeim var komið í björgunarbátinn, að sögn Ingimundar Ingvarsson í svæðisstjórn björgunarsveita á svæðinu. Þeim var komið til hafnar að Reykjum og þeim síðan ekið til Sauðárkróks.

„Úr því sem komið var fór þetta bara mjög vel,“ segir Ingimundur við Vísi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir