„Margir flottir og krefjandi leikir framundan“

Bjarki Már með liði Kormáks/Hvatar á Sauðárkróksvelli fyrr í sumar. MYND: ÓAB
Bjarki Már með liði Kormáks/Hvatar á Sauðárkróksvelli fyrr í sumar. MYND: ÓAB

Nú þegar Kormákur/Hvöt situr á toppi B-riðils í 4. deildinni þótti Feyki við hæfi að heyra hljóðið í þjálfara liðsins, Bjaka Má Árnasyni. „Ég er ánægður með síðustu leiki, vissulega er margt sem má gera betur en líka margt sem er búið að gera mjög vel. Við erum búnir að vinna fjóra leiki í röð og það er mjög erfitt að kvarta yfir því,“ segir Bjarki.

„Staðan í deildinni akkúrat núna er mjög fín en ég er lítið að velta því fyrir mér, heldur bara að við eigum leik á miðvikudag við SR sem verður hörkuleikur,“ bætir hann við en lið SR er í öðru sæti riðilsins, stigi á eftir Kormáki/Hvöt. Leikurinn fer fram á Blönduósvelli á morgun og hefst kl. 20:00.

Hvernig er staðan á liði K/H? „Hún er mjög góð að mestu leyti. Samsetning hópsins er góð þar sem við erum með marga unga og spræka leikmenn í bland við aðeins eldri og reyndari menn. Leikmennirnir eru flestir í flottu standi þannig að það er yfir litlu að kvarta.“

Hefur hópurinn styrkst frá því fyrst í sumar? „Það vantaði aðeins í hópinn í upphafi tímabils en við erum búnir að endurheimta flesta. Það eru samt alltaf einhver forföll og meiðsli eins og gengur og gerist. Við fengum svo til okkar tvo Spánverja, þá Ivan og Oliver, sem voru púsl sem okkur vantaði og þeir hafa klárlega styrkt liðið.“

Er B-riðill 4. deildar sterkur núna – hver er munurinn frá í fyrra? „Riðillinn hjá okkur er mjög sterkur og liðin í riðlinum eru svipað sterk. Enda sést það að þegar þetta er skrifað að þá eru 5 lið af 7 liðum í baráttunni um tvö efstu sætin, þar sem munar ekki nema þremur stigum frá 1.sæti í 5.sæti. Í fyrra stóð baráttan í rauninni á milli þriggja liða. Þannig það eru margir flottir og krefjandi leikir framundan hjá okkur í K/H,“ segir Bjarki.

Ekki hættur að fara fram í hornum

Bjarki, sem er árgerð 1978, er enn á fullri ferð inni á vellinum en hann spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik 24. ágúst 1997, ef eitthvað er að marka tölfræði á vefsíðu KSÍ. Þá lék hann með liði Keflavíkur gegn Val í efstu deild Íslandsmótsins. Síðan lá leiðin í Borgarnes en Skallagrímur var á þeim tíma með lið í 1. deild. Tvö tímabil spilaði kappinn í Noregi; í Kongsberg og Drammen. Bjarki á skráða leiki með Keflavík U23,Aftureldingu, síðan lá leiðin norður á Krók sumarið 2005 og hefur Bjarki haldið sig fyrir norðan síðan, spilað lengstum með liði Tindastóls en einnig Drangey, Magna og nú síðustu tvö tímabilin þjálfað og spilað með liði Kormáks/Hvatar. 

Hann á skráða 325 leiki hér á Íslandi og í þeim hefur hann skorað 40 mörk sem er ca. mark í áttunda hverjum leik, sem er ekki ónýt tölfræði hjá varnarmanni. Í fyrra lék Bjarki 15 leiki og gerði í þeim sex mörk. Eftir sjö leiki nú í sumar á Bjarki enn eftir að bæta við markareikninginn en sennilega hefur meirihluta marka hans í gegnum tíðina verið skoraður með skalla eftir hornspyrnur. Það liggur því beint við að spyrja...

Ertu hættur að fara fram í hornspyrnum? „Nei, ég er nú ekki hættur að fara fram í hornum en þetta er búið að vera svona meira stöngin út hjá mér á þessu tímabili. En mér er svosem alveg sama, ég þarf ekkert að skora mörk á meðan liðið vinnur leiki, þá er ég alveg sáttur,“ segir Bjarki en bætir við að hann hafi nú átt stoðsendingu í fyrra marki K/H um helgina þannig að enn sé nú eitthvað gagn af honum fram á við. „Ég er hins vegar mest sáttur við að við höfum aðeins fengið á okkur fjögur mörk í sex leikjum – það er ansi flott og ég er mjög ánægður með það,“ segir Bjarki og bætir við að lokum. „Það er eiginlega það sem ég er meira stoltur af en að ég sé að skora einhver mörk!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir