Margt að gerast á Hvammstanga á morgun

Íbúar Hvammstanga hafa svo sannarlega úr ýmissi afþreyingu að velja á morgun enda er aðventan við það að ganga í garð og ekki seinna vænna en að koma sér í smá jólastemningu.

Milli klukkan 10:00 og 18:00 verður opið hús hjá Ullarverksmiðjunni KIDKA og eru allir velkomnir á frábæran tilboðsdag með flottri jólastemningu, 20% afsláttur verður boðinn af allri vöru þennan dag og opið í prjónastofu svo fólki gefst tækifæri á að kynna sér starfsemi KIDKA. Klukkan 13:30 verður svo fimleikasýning þar sem hestafimleikakrakkar leika listir sínar. Og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni.

Í Félagsheimilinu verður árlegur jólamarkaður frá klukkan 11:00 til 17:00. Þar má reikna með miklu úrvali fallegra muna til sölu líkt og verið hefur undanfarin ár.

Klukkan 17:00 átti að tendra ljós á jólatrénu sunnan við félagsheimilið á Hvammstanga en þeim viðburði hefur verið frestað til mánudagsins 3. des. klukkan 18:00. Þar flytur Jenný Þórkatla Magnúsdóttir hugvekju um aðventuna og börn úr grunnskólanum syngja við undirspil Pálínu Fanneyjar Skúladóttur.
Kakó og piparkökur verða í boði og jólasveinar ætla að skálma til byggða og færa börnunum góðgæti.

 

Fleiri fréttir